Voru ekkert að spá í hvernig staðan væri hjá Víkingum

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks lék á miðjunni, eins og síðustu …
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks lék á miðjunni, eins og síðustu leikjum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég held að þetta hafi verið skemmtilegur leikur að horfa á enda hörkuleikur þegar eigast við tvö góð lið eigast við og mér finnst reyndar leikirnir við Fram í gegnum tíðina vera hörkuleikir, þessi var engin undantekning,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks eftir 3:1 sigur á Fram þegar liðin mættust á Kópavogsvelli í kvöld þegar leikið var í 19. umferð efstu deildar karla í fótbolta.

Með sigrinum komst Breiðablik upp að hlið Víkinga í efsta sætinu, bæði lið eru með 40 stig en tveimur mörkum betri markatölu – nú þegar 3 umferðir eru eftir.  Fyrirliðinn sagði sitt lið ekkert spá í hvað sé að gerast í öðrum leikjum. „Við vorum ekkert að spá í hvernig væri hjá Víkingum enda báðir á sama tíma svo þú getur ekkert verið að velta fyrir þér stöðunni í öðrum leik.  Við erum orðnir nokkuð vanir klisjum eins og bara taka einn leik fyrir einu, svo bara sjá hvað við stöndum uppi með,“ bætti Höskuldur við.

Höskuldur hefur jafnan verið bakvörður hjá Blikum en undanfarið verið á miðjum vellinum og sem nokkurs konar leikstjórnandi og gert það mjög vel en segir velta á liðinu hvaða hlutverk hann tekur.  „Ég er svo sem ekkert fastur í hlutverkinu á miðjunni, ég er bara hreyfanlegur og þetta hefur gengið ágætlega.  Maður tekur bara hvern leik fyrir sig hvar sem maður þarf að vera,“ bætti fyrirliðinn við.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert