Besti leikur okkar í sumar

Agla María Albertsdóttir með boltann í dag.
Agla María Albertsdóttir með boltann í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik hafði betur gegn Þrótti, 4:2, í Bestu deild kvenna í kvöld. Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, var að vonum sáttur þegar hann mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Það hefði verið auðvelt að slökkva á sér eftir tapið á föstudaginn en stelpurnar voru frábærar í dag. Í allri hreinskilni þá var þetta besti leikur okkar í sumar, við vorum með algjöra yfirburði frá fyrstu mínútu til enda.“

Breiðablik þurfti að þola 2:1 tap gegn Val í bikarúrslitum á Laugardalsvelli á föstudaginn síðastliðinn. Nik var ánægður með frammistöðu liðsins í dag.

„Við vorum þolinmóð og róleg og það var eitthvað sem við þurftum að vinna í. Fótboltinn sem við spiluðum var frábær. Annað markið rétt fyrir hálfleik hjálpaði klárlega fannst mér, við hefðum samt geta verið 4:0 yfir í hálfleik,“ sagði Nik.

Samantha Rose Smith, sem spilaði sinn fyrsta deildarleik með Breiðablik í dag, átti stórkostlegan leik, skorandi eitt og lagði upp tvö. Nik var ánægður með hennar frammistöðu.

„Hún var frábær. Hún gerði eitthvað sem við höfðum vonast til. Okkur vantaði eitthvað aukalega í sóknarleik okkar og hún hjálpaði þar,“ sagði Nik.

Eitt stig munar á Val og Breiðablik í fyrsta og öðru sæti þegar sex leikir eru eftir af tímabilinu.

„Bara eins og áður fyrr, við vitum að það eru sex leikir eftir og ef við vinnum alla sex þá vinnum við deildina. Víkingur á hins vegar eftir að vera erfiður leikur á sunnudaginn og þær munu koma með öðruvísi leikstíl heldur en við mættum hér í dag,“ sagði Nik að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert