Breiðablik lagði Þrótt, 4:2, í 17. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Laugardalnum í kvöld.
Úrslitin þýða að Breiðablik er í öðru sæti með 45 stig en Þróttur situr í sjöunda sæti með 20 stig.
Birta Georgsdóttir fékk fyrsta færi leiksins á áttundu mínútu. Hún fékk þá boltann í teig Þróttar, lék á Mollee Swift, markmann Þróttar, og skaut en María Eva Eyjólfsdóttir henti sér hetjulega fyrir það.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fékk dauðafæri á 18. mínútu til að koma Breiðablik yfir. Samantha Rose Smith skallaði boltann fyrir markið á Vigdísi inn í markteignum en skot hennar fór yfir markið.
Á 25. mínútu kom Birta Georgsdóttir Breiðabliki yfir. Smith keyrði inn á teig Þróttar, sendi boltann út í teiginn á Birtu sem skoraði yfirveguð í fjærhornið.
Breiðablik hélt áfram að vera líklegri aðilinn eftir markið og á 38. mínútu átti Vigdís Lilja skot í stöngina eftir að boltinn barst til hennar í teig Þróttar.
Karitas Tómasdóttir tvöfaldaði forystu Breiðabliks á lokamínútu fyrri hálfleiks. Smith kom með fyrirgjöf frá hægri sem Swift misreiknaði og skallaði Karitas boltanum í opið markið. Klaufalegt hjá Swift í marki Þróttar og var staðan 2:0, Breiðablik í vil í hálfleik.
Þróttur byrjaði síðari hálfleikinn vel og á 51. mínútu minnkaði Melissa Alison Garcia muninn. Það kom eftir að horn Sæunnar Björnsdóttur sem fann Garcia í miðjum teignum. Hún afgreiddi boltann í fyrstu snertingu, niðri í vinstra hornið.
Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Vigdís Lilja Kristjánsdóttir þriðja mark Breiðabliks. Smith átti skot beint á Swift sem varði boltann út í teiginn og náði Vigdís frákastinu og skoraði í opið markið.
Samantha Rose Smith gerði út um leikinn fyrir Breiðablik á 69. mínútu með góðu marki. Þá fékk hún boltann rétt fyrir utan teiginn, leitaði inn á vinstri fót sinn og skaut síðan niðri í nærhornið. Eitt mark og tvær stoðsendingar í hennar fyrsta deildarleik með Breiðablik.
Caroline Murray skoraði annað mark Þróttar á 79. mínútu og minnkaði muninn í 4:2. Freyja Karín Þorvarðardóttir renndi boltanum fyrir markið á Murray sem skoraði.
Þróttur mætir Stjörnunni í næstu umferð í síðasta leik áður en deildinni er skipt í efri og neðri hluta. Liðið sem vinnur þann leik endar í sjötta sæti og þar með efri hlutanum á meðan tapliðið endar í neðri hlutanum. Breiðablik mætir síðan Víking í næstu umferð