Ógeðslega pirrandi

Eva Rut í baráttunni í kvöld.
Eva Rut í baráttunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er ógeðslega pirrandi,“ sagði Eva Rut Ásþórsdóttir fyrirliði Fylkis í samtali við mbl.is eftir 0:2 tap gegn Val í Bestu deildinni í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Valskonur skoruðu bæði mörkin undir lok leiksins, eftir hetjulega baráttu Fylkisliðsins.

„Ég er stolt af liðinu. Við börðumst mjög vel og gerðum rosalega vel í 81 mínútu en svona er þetta. Það vantaði bara að halda hreinu. Það var smá skítamark sem við fáum á okkur fyrst.

Við verðum að byggja ofan á þetta og hafa trú á okkur. Við getum spilað við hvaða lið sem er og við verðum að taka þetta með okkur,“ sagði Eva.

Fylkisliðið lagði upp með að verjast vel í kvöld, sem bitnaði á sóknarleiknum.

„Það er erfitt á móti svona liði og í stöðunni sem við erum í. Við reyndum að verja markið okkar og að spila góðan varnarleik var númer eitt. Við komumst samt nokkrum sinnum nálægt því að skora en það gekk ekki í dag.“

Fylkir er enn þremur stigum frá öruggu sæti og þarf að ná í stig ef liðið ætlar að halda sér upp í efstu deild.

„Ég er spennt fyrir framhaldinu. Við þurfum að fara að sækja stig og sigra. Ef við byggjum á þessari frammistöðu hlýtur það að koma,“ sagði Eva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert