Það voru allir í sjokki

Lillý Rut, lengst til vinstri í bakgrunninum, í leiknum í …
Lillý Rut, lengst til vinstri í bakgrunninum, í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varnarmaðurinn Lillý Rut Hlynsdóttir skoraði fyrra mark Vals er liðið lagði Fylki, 2:0, í Bestu deild kvenna í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Valskonur þurftu að vera þolinmóðar, því mark Lillýjar kom ekki fyrr en á 81. mínútu.

„Þær spiluðu þetta mjög vel. Þær lágu til baka og beittu skyndisóknum. Það var erfitt að brjóta þær niður en það tókst. Mér líður alltaf eins og það muni takast á endanum í svona góðu liði. Þetta var kannski orðið smá stress,“ sagði hún við mbl.is eftir leik.

Markið var það fyrsta sem Lillý skorar í deildinni í rúm þrjú ár og því kærkomið. Markið var líka fallegt, þar sem hún tók boltann á kassann og skoraði með góðu skoti.

„Það var orðið mjög langt síðan. Þetta var svo góð sending og ég var alein. Ég tók hann niður og skaut. Það voru allir í sjokki og ég skil þá vel,“ sagði Lillý hlæjandi og hélt áfram:

„Auðvitað vill maður skora en ég var lítið að pæla í þessu. Ég er glöð með að geta hjálpað liðinu í dag. Mér leið vel í vörninni líka, þótt þær séu með snögga sóknarmenn og maður þurfti að vera á tánum allan leikinn.“

Valur er enn í toppsætinu en enn aðeins einu stigi á undan Breiðabliki fyrir lokakaflann.

„Við þurfum að einbeita okkur að okkur sjálfum. Við megum ekki misstíga okkur. Nú verðum við að halda einbeitingunni í lagi og klára þetta mót vel. Það er mikið undir, en við erum samt rólegar,“ sagði Lillý.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert