Valur áfram á toppnum eftir mörk í lokin

Valsarinn Ísabella Sara Tryggvadóttir í baráttunni við Fylkiskonuna Signýju Láru …
Valsarinn Ísabella Sara Tryggvadóttir í baráttunni við Fylkiskonuna Signýju Láru Bjarnadóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýkrýndir bikarmeistarar Vals höfðu betur gegn Fylki, 2:0, í Bestu deild kvenna í fótbolta á heimavelli sínum á Hlíðarenda í kvöld. Valur er enn í toppsæti deildarinnar, nú með 46 stig og einu stigi á undan Breiðabliki.

Fylkir er sem fyrr í níunda og næstneðsta sæti með níu stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

Liðunum gekk illa að skapa sér færi í fyrri hálfleik. Valskonur voru mun meira með boltann og fengu mikið af hornspyrnum, en Fylkisliðið varðist mjög vel. Fyrir aftan vörnina var Tinna Brá Magnúsdóttir svo örugg í sínum aðgerðum.

Hún þurfti þó aðeins einu sinni að taka á honum stóra sínum í hálfleiknum er Fanndís Friðriksdóttir slapp ein í gegn á 42. mínútu. Tinna gerði gríðarlega vel í að loka færinu og verja. Hinum megin skapaði Fylkir sér lítið og var markalaust í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipaður og sá fyrri framan af. Valskonur voru mikið með boltann en færin stóðu á sér.

Jasmín Erla Ingadóttir fékk þó glæsilegt færi til að skora fyrsta markið á 61. mínútu er hún fékk boltann í markteignum en Tinna varði stórglæsilega frá henni. Varamaðurinn Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir átti svo skot rétt yfir á 79. mínútu, en enn var staðan markalaus.

Það breyttist á 82. mínútu þegar varnarmaðurinn Lillý Rut Hlynsdóttir skoraði fallegt fyrsta mark leiksins. Fanndís Friðriksdóttir gaf í teiginn og Lillý tók boltann á kassann og skoraði með föstu skoti. Tinna var í boltanum en gat aðeins slegið hann í slána og inn.

Varamaðurinn Helena Ósk Hálfdánardóttir gulltryggði síðan Valssigur er hún ýtti boltanum yfir marklínuna eftir góða sendingu frá Nadíu Atladóttur, sem kom einnig inn á sem varamaður. Urðu mörkin ekki fleiri. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Þróttur R. 2:4 Breiðablik opna
90. mín. Leik lokið Breiðablik með sterkan 4:2 sigur.

Leiklýsing

Valur 2:0 Fylkir opna loka
90. mín. Það er fátt sem bendir til þess að Fylkir sé að fara að jafna. Fanney ekki þurft að gera mikið í markinu hingað til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert