Við alla vega skíttöpuðum ekki

Sæunn Björnsdóttir með boltann í kvöld.
Sæunn Björnsdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Óska Breiðablik til hamingju með góðan leik. Þær voru betri og verðskulduðu sigurinn,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, eftir tap liðsins gegn Breiðablik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Laugardalnum í kvöld.

Breiðablik fór inn með 2:0 forystu í hálfleik eftir mikla yfirburði. Þróttur náði að minnka muninn í 2:1 en Breiðablik gerði síðan út um leikinn með tveimur mörkum.

„Mér fannst svekkjandi að fá á okkur þriðja og svo fjórða markið. En ég er sáttur við það að í leik sem við spiluðum ekkert sérstaklega vel, þá skíttöpuðum við alla vega ekki heldur náðum að minnka þetta í 4:2 og áttum möguleika á 4:3.

Breiðablik voru bara betri, spiluðu betri leik, voru ákveðnari og fara með sigurinn og stundum verðurðu bara að kyngja því.“  

Næsti leikur Þróttar er gegn Stjörnunni í lokaleik deildarinnar áður en henni er skipt í efri og neðri hluta. Stjarnan er í sjötta sæti, sem skilar liðinu í efri hlutann, en Þróttur er einu stigi á eftir Stjörnunni í sjöunda sæti sem þýðir að liðið fer í neðri hlutann.

„Setjum þennan leik aftur fyrir okkur. Við vitum að við getum gert betur heldur en í kvöld. Við erum að mæta allt öðruvísi liði á sunnudaginn og það verður bara barátta um það hvort liðið verður fyrir ofan strik.

Við getum séð með Breiðablik að það er komið lengra á veg en við, miklu lengra. Annað af tveimur bestu liðunum í deildinni. Við erum að mæta Stjörnunni sem er kannski á svona svipuðu reki og við. Það verður allt öðruvísi leikur og það þarf bara að henda sér upp á hestinn aftur og vera klár í slaginn,“ sagði Ólafur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert