17 ára kominn með 19 mörk

Jakob Gunnar Sigurðsson, til hægri, skoraði bæði mörk Völsungs.
Jakob Gunnar Sigurðsson, til hægri, skoraði bæði mörk Völsungs. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Völsungs í sigri á KFG, 2:1, í 18. umferð 2. deildarinnar í knattspyrnu á Húsavík í kvöld. 

Jakob Gunnar, sem gengur í raðir KR eftir tímabilið, er kominn með 19 mörk í 18 leikjum á tímabilinu og er langmarkahæstur. 

Völsungur er í öðru sæti með 35 stig en KFG er í tíunda sæti með 17 stig. 

Selfoss með annan fótinn upp

Selfoss vann KF, 3:2, á Selfossi í kvöld.  Selfyssingar eru í toppsæti deildarinnar með 41 stig, níu stigum á undan Víkingi Ólafsvík þegar fjórar umferðir eru eftir. 

Það má því segja að Selfyssingar séu komnir með annan fótinn upp í 1. deildina. 

Nacho Gil, Alfredo Ivan Arguello og Aron Fannar Birgisson komu Selfossi í 3:0 en Vitor Vieira Thomas og Þorsteinn Már Þorvaldsson gerðu leikinn spennandi undir lokin með því að minnka muninn í 3:2. Nær komst KF þó ekki. 

KFA vann 8:2

KFA fór afar illa með Hött/Huginn, 8:2, í Austurlandsslagnum á Reyðarfirði í kvöld. KFA, sem hafði tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum, er í fimmta sæti með 31 stig en Víkingur Ólafsvík, sem vann Hauka, 3:2, í Ólafsvík er í fjórða sæti með 32 stig. 

Höttur/Huginn er í sjötta sæti með 27 stig en Haukar eru í sjöunda sæti með 26 stig. 

Þróttur úr Vogum vann Reyni úr Sandgerði sannfærandi, 4:1, í Vogum. Þróttarar eru í þriðja sæti með 32 stig en Reynir er í neðsta sæti með ellefu stig, sex stigum frá öruggu sæti. 

Ægir úr Þorlákshöfn vann Kormák/Hvöt, 1:0, á Blönduósi. Ægir er í áttunda sæti með 21 stig en Kormákur/Hvöt er í níunda sæti með 19 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert