Áfrýjunardómstóll tekur mál KR fyrir

HK-ingar ganga af velli í þarsíðustu viku eftir að leikurinn …
HK-ingar ganga af velli í þarsíðustu viku eftir að leikurinn gegn KR gat ekki farið fram. mbl.is/Eyþór Árnason

Mál KR þar sem knattspyrnudeild félagsins fer fram á að karlaliðinu verði dæmdur 3:0-sigur í leik liðsins í Bestu deildinni verður tekið fyrir af áfrýjunardómstóli.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vísaði kröfu KR frá í gær og áfrýjaði félagið í kjölfarið.

Leiknum, sem átti að fara fram í þarsíðustu viku í Kórnum, var frestað þegar í ljós kom að annað markið í höllinni var brotið.

Frestaður leikurinn á að fara fram í Kórnum annað kvöld og tíminn því naumur til að taka málið fyrir. Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ, sagði hins vegar í samtali við Vísi að það verði gert í dag.

„Það barst áfrýjun frá knattspyrnudeild KR í morgun, um níuleytið. Sú áfrýjun var strax sett í ferli.

Varnaraðilum í málinu, stjórn KSÍ og HK, var gefinn frestur til að hreyfa við andmælum eða taka til varnar í málinu til klukkan þrjú í dag.

Svo mun dómstóllinn koma saman seinni partinn í dag og taka málið fyrir. Svo hugsanlega ná að klára málið í kvöld eða fyrramálið,“ sagði Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert