KR áfrýjar niðurstöðunni – leikurinn á dagskrá annað kvöld

Æfingamark borið inn í Kórinn þann 9. ágúst síðastliðinn þar …
Æfingamark borið inn í Kórinn þann 9. ágúst síðastliðinn þar sem eitt mark vallarins var brotið. mbl.is/Eyþór Árnason

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, segir félagið ætla að áfrýja frávísun aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í máli þess þar sem farið var fram á að karlaliðinu yrði dæmdur 3:0-sigur í frestuðum leik gegn HK.

Leikurinn gat ekki farið fram í Kórnum í þarsíðustu viku þar sem annað markið var brotið. Í frávísun aga- og úrskurðarnefndar kom meðal annars fram að fresta hafi þurft leiknum vegna  „óviðráðanlegra orsaka.“

Í kærunni sem KR lagði fram sagði að brotið mark væri ekki dæmi um óviðráðanlegar aðstæður.

„Ég held að það séu öll sammála að þegar horft er á eitthvað sem er óviðráðanlegt þá eigi það ekki við í þessu tiltekna tilfelli en það er líklega eina dæmið sem hægt er að vísa í til að fá efnislega niðurstöðu eins og stjórnin gerir.

Ef þetta eru óviðráðanlegar aðstæður er verið að teygja hugtakið ansi vítt og ekki samræmi við neina lögfræði,“ sagði Páll í samtali við Vísi í gær og bætti því við að hann hefði viljað að nefndin fjallaði efnislega um málið.

Frestaður leikurinn er á dagskrá í Kórnum annað kvöld og tíminn því ansi knappur eigi æðra dómsvald að geta fjallað efnislega um málið líkt og KR óskar eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert