Allir meistarar góðir í einhverju

Nikolaj Hansen fagnar marki í leik með Víkingi.
Nikolaj Hansen fagnar marki í leik með Víkingi. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er virkilega spenntur. Ég held að þetta verði góður leikur,“ sagði Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings, fyrir fyrri leik liðsins gegn UE Santa Coloma frá Andorra í 4. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

„Ég tel það gott að spila fyrri leikinn á heimavelli þar sem við getum náð í góð úrslit og sýnt stuðningsmönnunum að við erum reiðubúnir að fara í deildarkeppnina,“ sagði Nikolaj í samtali við mbl.is á fréttamannafundi í Víkinni í gær.

Víkingar hafa átt í erfiðleikum á heimavelli undanfarið, bæði í Sambandsdeildinni og Bestu deildinni, en unnið frækna sigra á útivelli í Evrópukeppninni.

Spurður hvað hann teldi hafa valdið þessum erfiðleikum á heimavelli að undanförnu sagði Nikolaj:

„Ég veit það ekki, það er erfitt að segja. Ég held að þetta hafi meira haft með hugarfar að gera en eitthvað annað, að þetta sé í höfðinu á mönnum. Við þurfum að mæta í hvern einasta leik.

Við höfum kannski verið að velja þá leiki sem við viljum mæta til leiks í. Maður getur ekki mætt í leik og verið 95 prósent ef maður ætlar að vinna leiki í Bestu deildinni, hvað þá í Evrópukeppni.“

Líklegri til að fara áfram

Danski sóknarmaðurinn var beðinn um að skýra frá því hvers konar lið Santa Coloma væri.

„Ég býst við þeim góðum á boltanum. Þetta er lið sem er gott í að halda boltanum, þeir hafa ekki verið undir í því gegn hinum liðunum.

Það eru margir spænskir leikmenn sem eru tæknilega góðir. Við þurfum að sækja á þá þegar við fáum tækifæri til og refsa þeim þegar þeir missa boltann,“ sagði hann.

Bætti Nikolaj því við að hann teldi Víking sigurstranglegri aðilann.

„Ég myndi segja að við séum sigurstranglegri og líklegri til þess að komast áfram, ég tel það víst.

En ef við verðum ekki reiðubúnir í leikinn þá munum við ekki ná í góð úrslit. Þeir eru meistarar Andorra og allir meistarar eru góðir í einhverju.“

Spilum ekki tvisvar við sömu liðin

Honum líst vel á nýja fyrirkomulagið í Sambandsdeildinni þar sem deildarkeppni tekur við af riðlakeppni.

„Ég tel það vera skemmtilegt. Það er líka meira spennandi því þá spilum við ekki við sömu liðin tvisvar. Við fáum sex leiki gegn sex ólíkum andstæðingum. Ég myndi segja að þetta sé gott fyrirkomulag.“

Nikolaj kvaðst að lokum bjartsýnn á að Víkingur reynist hlutskarpari í einvíginu og tryggi sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.

„Já, alveg pottþétt. Eða kannski pottþétt en ég er bjartsýnn á góða frammistöðu á morgun [í kvöld] og vonast eftir góðum úrslitum sem við getum tekið með okkur til Andorra og sjá hvernig þetta fer. Það verður mjög erfitt að spila þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert