Arnar: Þeir misstu hausinn

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings, var að vonum sáttur við frammistöðu sinna manna gegn UE Santa Coloma í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Sambandsdeildinni í fótbolta í haust í Fossvoginum í kvöld.

Víkingur vann leikinn, 5:0, en seinni leikurinn fer fram eftir nákvæmlega viku.

Víkingsliðið klúðraði tveimur af þremur vítaspyrnum sínum í kvöld en undir lok fyrri hálfleiks fékk Christian Garcia, fyrirliði UE Santa Coloma, rautt spjald.

„Við vorum fyrst og fremst bara frábærir í fyrri hálfleik. Ellefu á móti ellefu. Við vorum að herja á þá vel, náðum öflugum sóknum og stöðvuðum þá vel. 

Leikurinn breyttist eftir að rauða spjaldið kom. Þeir misstu aðeins hausinn og fóru að pressa okkur á skringilega hátt og skildu eftir kantanna. Þeir buðu bara upp á veislu með því. 

Við vorum ekki gjafmildir í dag heldur mjög ákveðnir og nýttum okkar stöður vel. Við tókum þessu veisluboði fagnandi og gerðum fimm góð mörk. 

Við höfum hingað til verið mjög öflugir í stóru leikjunum okkar. Menn voru óánægðir með sjálfa sig eftir það sem hefur gerst í síðustu tveimur deildarleikjum. 

Þá langaði virkilega að gera þetta að góðu kvöldi. Ég held að það hafi margt komið að þessu. Það er oft þannig að þegar þú ert kvíðinn eða taugastreittur þá nærðu að finna góða orku sem skein svo sannarlega í kvöld,“ sagði Arnar við mbl.is beint eftir leik. 

Hvergi betri staður að vera

Það var uppselt á Víkingsvellinum í kvöld og það heyrðist vel í stuðningsmönnum liðsins. 

„Hvergi betri staður að vera á en í Víkinni þegar að vel gengur. Áhorfendur komu virkilega vel stemmdir til leiks og ýttu okkur áfram. Við fundum líka að þegar Aron klikkaði á vítinu var enginn að hengja haus. 

Stórt hrós á alla sem koma að félaginu í kvöld.“

Lið Víkinga var mjög sókndjarft og þegar að Víkingur var með boltann var aðeins Oliver Ekroth á vallarhelmingi Víkings.  

„Við vorum svona framan af sumri. Þá vorum við virkilega agresívir með varnarlínuna okkar að fara með hana eins hátt og hægt er. 

Við ætlum ekki að leyfa andstæðingnum að stjórna leiknum heldur viljum við stjórna þeim. 

Mér fannst við gera þetta aftur vel í kvöld. Vonandi er það sem koma skal í deildinni og bikar. Ég fann okkar lið aftur í dag eftir leiki sem við erum ekki vanir að spila.“

Viljum setja tóninn

Arnar var sammála blaðamanni að Víkingar séu í smá undarlegri stöðu fyrir seinni leikinn, verandi 5:0-yfir.

„Við þurfum að fara út með ákveðið hugarfar. Við verðum að setja tóninn fyrir restina af tímabilinu. Það væri súrt bragð í munninn að fara út og klúðra seinni leiknum með lélegri frammistöðu. Síðan er Valsleikurinn stuttu seinna. 

Það er mikil áhersla lögð á að halda einbeitingu. Einvígið er ekki búið en við viljum koma heim sáttir.“

Einn kemur til baka, annar dettur út

Arnar Gunnlaugsson vonast til þess að Halldór Smári Sigurðsson og Matthías Vilhjálmsson verði klárir fyrir úrslitakeppnina í Bestu deildinni. Davíð Örn Atlason tognaði hins vegar í leiknum. 

„Vonandi verða Halli og Matti klárir þegar að úrslitakeppnin byrjar. Því miður sýndist okkur Davíð Atla togna aftur í þessum leik þannig það verða einhverjar vikur. 

Svona er þetta þegar það er mikið leikjaálag. Þegar að næsti maður kemur inn eftir meiðsli þá meiðist einhver annar. Svona er bara bransinn.“

„Við vildum vera í þessari stöðu í vor. Nú erum við vonandi búnir að setja X við að komast í Sambandsdeildina og þá fer full einbeiting á deildina þangað til að bikarúrslitaleikurinn er,“ bætti Arnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert