Búið að dreyma um að vera hérna

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég held að okkur sé búið að dreyma um að vera hérna síðan í fyrra, þegar við vorum að öfundast út í Blikana fyrir að hafa komist svona langt og náð að klára sitt einvígi,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, fyrir fyrri leik liðsins gegn UE Santa Coloma í 4. umferð Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

Sigurvegari einvígisins tryggir sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu.

„Þá gátum við ekki beðið eftir því að takast á við þetta. Þetta byrjaði brösuglega og leit ekkert vel út en það hefur verið þvílíkur karakter og þrautseigja í liðinu, sérstaklega á þessum erfiðu útivöllum.

Að ná að kvitta fyrir, ég ætla ekki að segja lélegar frammistöður á heimavelli en léleg úrslit,“ sagði Arnar er mbl.is ræddi við hann á fréttamannafundi í Víkinni í gær.

Ákveðið taktleysi í liðinu

Víkingur hefur náð í góð úrslit í undankeppni Sambandsdeildarinnar en flest þeirra hafa verið á útivelli. Gengið hefur brösuglega á heimavelli, einnig í Bestu deildinni að undanförnu. Spurður hvort hann kynni einhverja skýringu á þessum erfiðleikum á heimavelli undanfarið sagði Arnar:

„Við höfum rosa mikið verið að spila á móti liðum sem sitja aftarlega á þessu tímabili samanborið við hin tímabilin, alveg ótrúlega mikið. Kenningarnar mínar svona hingað til snúa að því að þegar maður róterar svona mikið kemur ákveðið taktleysi í liðið.

Taktur er eitthvað sem þú þarft nauðsynlega á að halda þegar þú ert að spila á móti liðum sem eru aftarlega. Það eru ákveðin mynstur þar sem menn þurfa að þekkja inn á hvern annan. Það getur verið ein skýringin.

Ég vil helst ekki vera með einhverjar afsakanir um þreytu og þess háttar en það er svona líklegasta skýringin, að það vantar ákveðinn takt. Á móti kemur erum við orðnir ansi vanir að spila á móti liðum sem liggja aftarlega.

Við erum að reyna að sýna fram á það eftir hvern einasta leik að við erum að reyna að finna einhverjar lausnir. Það er líka hrós í okkar garð að lið séu að koma hingað til að verjast lágt og beita skyndisóknum. Við verðum líka að taka þessu sem hrósi og reyna að læra af því.“

Finnst gaman að veiða menn í gildrur

Víkingur er sigurstranglegri aðilinn fyrir fram en Arnar sagði þó ýmislegt að varast hjá gestunum frá Andorra.

„Þetta er 4-4-2 lið. Það eru margir Spánverjar þarna og þeir eru teknískir. Þeir kunna ýmislegt fyrir sér í fótbolta og finnst gaman að spila stuttar sendingar og veiða menn í gildrur. Þeir eru óhræddir og boltinn er í reynd vinur þeirra.

Við erum að búast við öðruvísi viðureign en við höfum farið í. Í Bestu deildinni er kannski einna helst hægt að líkja þeim við Stjörnuna.

Við þurfum að vera virkilega agaðir þegar við förum í pressuna, annað en við vorum til dæmis í fyrri hálfleik á móti Skaganum þar sem menn hlupu út úr stöðum og fóru í einhverja þvælu.

Við megum ekki láta teyma okkur út í einhverja vitleysu. Það er svona það helsta sem við þurfum að varast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert