Einn stærsti sigurinn - Nikolaj orðinn efstur

Nikolaj Hansen fagnar öðru marka sinna gegn UE Santa Coloma …
Nikolaj Hansen fagnar öðru marka sinna gegn UE Santa Coloma í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigur Víkings á UE Santa Coloma frá Andorra, 5:0, í undankeppni Sambandsdeildar karla í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld er í hópi fimm stærstu sigra íslenskra karlaliða í Evrópukeppni.

Víkingar hafa sjálfir einu sinni áður unnið fimm marka sigur, gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi, 6:1, fyrir tveimur árum. 

Breiðablik og KR deila hins vegar stærstu sigrunum en bæði hafa unnið sex marka sigur í Evrópukeppni.

Þessir fimm stærstu sigrar íslenskra liða eru eftirtaldir:

Breiðablik vann Tre Penne frá San Marínó, 7:1, í forkeppni Meistaradeildar á Kópavogsvelli sumarið 2023.

KR vann Glenavon, 6:0, á útivelli á Norður-Írlandi í 1. umferð undankeppni Evrópudeildar sumarið 2016.

Víkingur vann Levadia Tallinn frá Eistlandi, 6:1, í forkeppni Meistaradeildar á Víkingsvelli sumarið 2022.

Breiðablik vann Buducnost frá Svartfjallalandi, 5:0, í forkeppni Meistaradeildar á Kópavogsvelli sumarið 2023.

Víkingur vann UE Santa Coloma frá Andorra, 5:0, í 4. umferð undankeppni Sambandsdeildar í kvöld.

Nikolaj Hansen skoraði tvö marka Víkings í kvöld og er þar með orðinn markahæsti leikmaður félagsins í Evrópukeppni með samtals sex mörk. Hann sló met Kristals Mána Ingasonar sem skoraði fimm Evrópumörk fyrir Víking.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert