Eitt af betri fyrirbærum sem hefur verið fundið upp

Jón Guðni Fjóluson, Gísli Gottskálk Þórðarson, Karl Friðleifur Gunnarsson, Valdimar …
Jón Guðni Fjóluson, Gísli Gottskálk Þórðarson, Karl Friðleifur Gunnarsson, Valdimar Þór Ingimundarson og Helgi Guðjónsson fagna marki í leik með Víkingi. mbl.is/Ólafur Árdal

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, telur það vera betra að teljast fyrir fram sterkari aðilinn í einvígi liðsins gegn UE Santa Coloma frá Andorra í 4. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla.

Liðin mætast í fyrri leiknum á Víkingsvelli klukkan 18 í kvöld.

„Ég held að það sé bara betra. Við erum eiginlega búnir að vera það í öllum þessum einvígjum held ég. Eins og ég hef minnst á með lið sem sitja aftarlega þá verðum við að taka því sem hrósi.

Þetta er bara hrós og við reynum þá að vera með kassann úti og sýna fram á af hverju við erum sigurstranglegra liðið. Þá eigum við að vera svolitlir prótagónistar á vellinum, taka leikinn til þeirra og vera liðið sem er að sýna frumkvæði, bæði í varnarleik og sérstaklega með boltann.

Ekki að bíða eftir augnablikum heldur sækja þau sjálfir. Ég held að það sé aðalatriðið fyrir lið sem eru sigurstranglegri fyrir fram. Ef við horfum á öll bestu liðin úti í þessum stóra heimi eru það þau sem eru í reynd að sýna frumkvæði,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is á fréttamannafundi í Víkinni í gær.

Mjög sexý að takast á við þetta

Í vikunni tilkynnti Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, að Evrópudeildin og Sambandsdeild Evrópu tækju keimlíkum breytingum og Meistaradeild Evrópu hafi gengið í gegnum; þar sem deildarkeppni tekur við af riðlakeppni.

Arnari líst afskaplega vel á þá breytingu.

„Veistu það, þetta er svo spennandi að það hálfa væri nóg. Á glærum á fundinum áðan [í gær] vorum við að dagdreyma um vellina sem við gætum verið að spila á. Við gætum farið á Stamford Bridge þennan daginn og svo getum við verið í Flórens hinn daginn.

Svo getum við farið til FC Köbenhavn og þeir geta komið hingað. Ég held að þessi Sambandsdeild sé eitt af betri fyrirbærum sem hefur verið fundið upp í fótbolta.

Þetta nýja fyrirkomulag er virkilega spennandi, ég held að það sé mjög sexý að takast á við þetta,“ sagði hann.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Ólafur Árdal

Eins um síðasta leik ævinnar sé að ræða

Bætti Arnar við að hann væri bjartsýnn á að Víkingur kæmist alla leið í deildarkeppnina.

„Ég er alltaf mjög bjartsýnn. Þetta Andorra lið er sýnd veiði en ekki gefin. Ég held að strákarnir þurfi bara að spila þennan leik eins og hann sé sá síðasti í þeirra lífi.

Ef ég myndi hugsa um síðasta leikinn í mínu lífi myndi ég hugsa að ég vildi skora fimm mörk og vinna 10:0 en það virkar ekki þannig. Byrjaðu á þessum atriðum sem þú getur stjórnað, sem eru þá barátta og að vera með á nótunum hvað einbeitingu og taktík varðar.

Ef þú ert með þessa þrjá hluti á hreinu þá segir sagan okkur að restin kemur í framhaldinu af því,“ sagði Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert