Fertugur Óskar Örn: Með betri afmælisdögum

Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta er alveg með betri afmælisdögum,“ sagði fertugur Óskar Örn Hauksson í samtali við mbl.is eftir stórsigur Víkinga, 5:0, á UE Santa Coloma frá Andorra í umspili um sæti í Sambandsdeildinni í fótbolta í haust. 

Víkingur er kominn með annan fótinn inn í lokakeppni Sambandsdeildarinnar en seinni leikurinn fer fram eftir slétta viku. 

Óskar Örn, sem er einn besti leikmaður í sögu Íslandsmótsins í fótbolta, er fertugur í dag en hann kom inn á í seinni hálfleik. 

Hann kom fyrst til Víkinga sem styrktarþjálfari liðsins en hefur fengið stórt hlutverk í leikmannahópnum. 

„Ef einhver hefði sagt við mig fyrir ári síðan að ég væri að koma inn á í úrslitaeinvígi um sæti í Sambandsdeildinni hefði ég hlegið. 

Svona er lífið og boltinn, maður veit aldrei hvert hann tekur mann. Ég er bara afskaplega þakklátur og ánægður með þetta,“ sagði Óskar Örn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert