ÍBV eygir enn von

Olga Sevcova skoraði tvívegis í kvöld.
Olga Sevcova skoraði tvívegis í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

ÍBV vann sterkan sigur á Selfossi, 3:0, þegar liðin áttust við í Suðurlandsslag í 16. umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

ÍBV er í fjórða sæti með 25 stig, þremur stigum á eftir Fram og Gróttu í sætunum fyrir ofan og á því enn möguleika á því að ná öðru sætinu, sem gefur sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili.

Selfoss er enn í níunda sæti, fallsæti, með 14 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

Olga Sevcova skoraði tvívegis fyrir ÍBV og er komin með níu mörk í 16 deildarleikjum. Helena Hekla Hlynsdóttir komst einnig á blað.

HK lagði botnliðið

HK heimsótti botnlið ÍR í Breiðholtið og hafði betur, 3:1.

HK er í fimmta sæti með 24 stig og er enn með í baráttunni um að komast upp. ÍR er þegar fallið niður í 2. deild.

Hrafnhildur Salka Pálmadóttir, Jana Sól Valdimarsdóttir og Brookelynn Entz skoruðu mörk HK. Entz er komin með 12 mörk í 16 deildarleikjum á tímabilinu.

Lovísa Guðrún Einarsdóttir skoraði fyrir ÍR.

Jafnt á Skaganum

Þá mættust ÍA og Afturelding á Akranesi og gerðu jafntefli, 2:2.

ÍA er í sjötta sæti með 23 stig og Afturelding er sæti neðar með 22 stig.

Selma Dögg Þorsteinsdóttir og Erna Björt Elíasdóttir skoruðu fyrir ÍA.

Anna Pálína Sigurðardóttir og Sigrún Eva Sigurðardóttir skoruðu mörk Aftureldingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert