Set alla pressu í heiminum á okkur

Ari Sigurpálsson gefur fyrir í kvöld.
Ari Sigurpálsson gefur fyrir í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin er virkilega góð,“ sagði Víkingurinn Ari Sigurpálsson í samtali við mbl.is eftir stórsigur Víkings á UE Santa Coloma frá Andorra, 5:0, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Sambandsdeildinni í fótbolta í haust. 

Seinni leikur liðanna fer fram eftir viku en sigurvegarinn fer í lokakeppni Sambandsdeildarinnar. 

„Við lögðum upp með að klára þetta hér heima og það tókst. Rauða spjaldið hjálpaði vissulega til en mér fannst við mæta grimmir til leiks. 

Á mánudaginn mættum við ÍA þar sem við töpuðum öllum einvígum. Við ætluðum að breyta því í kvöld og það er nákvæmlega það sem gerðist. Þá koma gæðin í ljós,“ sagði Ari beint eftir leik. 

Eigum að vera komnir í hana

Ari vill meina að Víkingsliðið sé gott sem komið í Sambandsdeildina þrátt fyrir að það eigi eftir að spila seinni leikinn í Andorra.  

„Ég myndi segja að við eigum að vera komnir í Sambandsdeildina. Það væri mjög lélegt að klára þetta ekki upp úr þessu. Þannig ég set alla pressu í heiminum á okkur.“

Þetta er þriðja tímabil og Evrópuævintýri Ara hjá Víkingi. 

„Evrópuævintýrið 2022 var ansi skemmtilegt. Það gekk illa í fyrra. Öðruvísi leið þetta árið en Evrópuævintýrið er ekki búið, við ætlum lengra.“

Eru Evrópuleikirnir hápunktur sumarsins?

„100 prósent. Ég var líka ánægður með stúkuna í dag. Menn tóku almennilega við sér eftir að hafa slakað aðeins á undanfarið. 

Stuðningsmennirnir fengu alvöru Víkingslið í kvöld.“

Þurfa enn stuðninginn 

Stuðningsmenn Víkings hafa ekki verið jafn kröftugir í ár og undanfarin ár. Þeir tóku hins vegar vel við sér í kvöld.  

„Jájá skiljanlega, menn eru góðu vanir. Við höfum unnið titla og komist langt þannig menn búast við miklu af okkur. Við þurfum hins vegar enn stuðninginn, það er bara svoleiðis.“ 

Hvað er næst?

„Númer eitt, tvö og þrjú ætlum við að klára þetta einvígi í Andorra, það er staðfest,“ bætti Ari Sigurpálsson við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert