Vorum gjörsamlega með þá í köðlunum

Leifur Andri Leifsson er fyrirliði HK.
Leifur Andri Leifsson er fyrirliði HK. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK var sigurreifur eftir dramatískan 3:2 sigur HK á KR í Bestu deildinni í fótbolta í Kórnum í kvöld.

Það var talsvert annar tónn í fyrirliðanum í kvöld þegar undirritaður ræddi við hann heldur en var eftir tapið gegn Fylki fyrir nokkrum dögum. Leifur hafði þetta að segja þegar mbl.is spurði hann út viðsnúninginn sem átti sér stað í leiknum í kvöld.

„Þetta var svo sannarlega leikur tveggja hálfleika. Við vorum gjörsamlega með þá í köðlunum í seinni hálfleik. Í fyrri hálfleik var þannig að við vorum bara hræddir, vorum ekki að hlaupa til baka og verjast. Í hálfleik var allt kolvitlaust í klefanum þar sem það var bara tekinn tryllingur og mönnum sagt að setja kassann út, fara maður á mann og elta þá út um allan völl.

Ég vil bara hrósa liðinu fyrir að stíga svona svakalega upp. Það er ekki auðvelt að koma hérna út 2:0 undir á móti góðu liði eins og KR og halda þeim upp við sinn eigin vítateig nánast allan seinni hálfleik. Þetta var klárlega verðskuldað miðað við hvernig við spiluðum í seinni hálfleik.“

Getum unnið öll lið

Þið hafið sætaskipti við Fylki og eruð með stigi meira. HK er samt ennþá í bullandi fallbaráttu þegar þið mæti Stjörnunni á mánudagskvöld. Hvað þarf til að byggja ofan á þennan sigur í kvöld?

„Ef við sýnum svona frammistöðu eins og við sýndum í seinni hálfleik. Þennan vilja, þessa trú og þetta hungur þá getum við unnið öll lið. Lykilatriðið er samt að við þurfum að gera þetta í 90 mínútur og við verðum að mæta í leikina og spila þá frá upphafi til enda. Við erum vissulega í fallbaráttu en við erum alls ekki brotnir og við ætlum að klára þetta mót með sæmd."

„Ég verð að hrósa Eiði. Hann byrjaði á móti Breiðablik og náði 8 sekúndum áður en hann fékk höfuðhögg.

Hann byrjar síðan aftur núna og sýnir þessa frábæri frammistöðu. Hann hefur sýnt það á æfingum að hann er skrokkur og öflugur í loftinu og að halda bolta. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hafa svona sterkan leikmann og HK-ing sem er tilbúinn til að berjast fyrir klúbbinn.

Hann er frábær leikmaður og hugrekki að koma hérna og fara í öll einvígi þrátt fyrir þetta höfuðhögg og það virðist engu máli skipta í hvaða deild hann spilar, hann skorar bara mörk," sagði Leifur Andri í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert