Eiður Gauti Sæbjörnsson framherji HK var besti leikmaður 17. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Eiður Gauti átti mjög góðan leik fyrir HK og fékk tvö M fyrir frammistöðu sína þegar HK vann ótrúlegan sigur gegn KR, 3:2, í Kórnum í fyrrakvöld.
17. umferðin var leikin mánudaginn 5. ágúst, þriðjudaginn 6. ágúst , miðvikudaginn 7. ágúst og lauk svo með leik HK og KR á fimmtudaginn en leiknum var upphaflega frestað þar sem annað markið í Kórnum reyndist brotið fimmtudaginn 8. ágúst, þegar leikurinn átti að fara fram.
Eiður Gauti fór mikinn fyrir HK-inga í 3:2-sigrinum en KR leiddi með tveimur mörkum gegn engu í hálfleik. Eiður minnkaði muninn í 2:1 á 48. mínútu með laglegu skoti, rétt utan teigs. Hann jafnaði svo metin með frábæru skallamarki á 70. mínútu eftir sendingu Ívars Arnar Jónssonar.
Framherjinn, sem er 25 ára gamall, er uppalinn í Kópavoginum og hefur lengst af leikið með Ými, varaliði HK, þar sem hann hefur raðað inn mörkunum í 4. deildinni en hann hefur skorað 66 mörk í 54 leikjum í 4. deildinni. Faðir Eiðs, Sæbjörn Guðmundsson, er mikill KR-ingur og lék 154 leiki í efstu deild fyrir KR og skoraði í þeim 20 mörk.
Úrvalslið 17. umferðarinnar má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.