Grindavík kom Selfossi í vonda stöðu

Sigríður Emma F. Jónsdóttir (t.h.) skoraði tvívegis fyrir Grindavík í …
Sigríður Emma F. Jónsdóttir (t.h.) skoraði tvívegis fyrir Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindavík gerði frábæra ferð austur á Reyðarfjörð og lagði deildarmeistara FHL örugglega að velli, 4:1, í lokaleik 16. umferðar 1. deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

Með sigrinum styrkti Grindavík stöðu sína í botnbaráttunni þar sem liðið er nú með 20 stig í áttunda sæti, sex stigum fyrir ofan Selfoss í níunda sæti, fallsæti, þegar aðeins tvær umferðir eru óleiknar.

Selfoss og Grindavík mætast í lokaumferðinni í leik sem gæti skorið úr um hvort liðið fellur niður í 2. deild. Áður þarf Selfoss hinsvegar að vinna Gróttu á útivelli til að eiga möguleika á að forða sér frá falli.

FHL var þegar búið að vinna deildina og er með 37 stig á toppnum.

Grindavík lék á als oddi og komst í 4:0 áður en Selena Salas minnkaði muninn fyrir FHL 13 mínútum fyrir leikslok.

Sigríður Emma F. Jónsdóttir skoraði tvívegis fyrir Grindavík og Helga Rut Einarsdóttir komst einnig á blað. Markvörður FHL skoraði auk þess sjálfsmark.

Tveir bestu leikmenn FHL fóru frá liðinu eftir að sætið í Bestu deildinni var tryggt. Emma Hawkins fór til Damaiense í Portúgal og Samantha Smith var lánuð til Breiðabliks en þær skoruðu 39 mörk samtals fyrir liðið í 1. deildinni í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert