Grindavík skoraði sjö og Leiknir fimm

Ion Perelló skoraði eitt marka Grindavíkur.
Ion Perelló skoraði eitt marka Grindavíkur. mbl.is/Hákon

Grindavík fór ansi illa með Dalvík/Reyni er liðin mættust á Dalvíkurvelli í 1. deild karla í fótbolta í dag. Urðu lokatölur 7:1.

Áki Sölvason kom Dalvík/Reyni yfir á tíundu mínútu en Dagur Ingi Hammer Gunnarsson jafnaði á 39. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.

Er óhætt að segja að seinni hálfleikurinn hafi verið eign Grindvíkinga því þeir skoruðu sex mörk. Adam Árni Róbertsson gerði tvö þeirra og þeir Ion Perelló, Sigurjón Rúnarsson, Daniel Ndi og Kristófer Konráðsson komust allir á blað.

Leiknir úr Reykjavík vann ögn minni sigur er Þór kom í heimsókn en lokatölurnar í Breiðholti urðu 5:1.

Shkelzen Veseli og Róbert Hauksson skoruðu á 31. og 33. mínútu og komu Leikni í 2:0. Sigfús Fannar Gunnarsson minnkaði muninn á 36. mínútu og var staðan í hálfleik 2:1.

Shkelzen gerði sitt annað mark og þriðja mark Leiknis á 59. mínútu og Róbert Quental Árnason bætti við fjórða og fimmta markinu á 66. og 79. mínútu og fjögurra marka sigur Leiknis varð raunin.

Staðan:

  1. ÍBV 35
  2. Fjölnir 34
  3. Njarðvík 31
  4. Keflavík 31
  5. ÍR 31
  6. Afturelding 30
  7. Þróttur R. 26
  8. Grindavík 24
  9. Leiknir R. 21
  10. Þór 19
  11. Grótta 13
  12. Dalvík/Reynir 13
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert