Óvænt úrslit í fimm marka leikjum

Bjartur Bjarmi Barkarson úr Aftureldingu og Vicente Valor hjá ÍBV …
Bjartur Bjarmi Barkarson úr Aftureldingu og Vicente Valor hjá ÍBV eigast við í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Topplið ÍBV mátti þola tap, 3:2, á heimavelli gegn Aftureldingu í 1. deild karla í fótbolta í dag. Þrátt fyrir tapið er ÍBV enn í toppsætinu með 35 stig. Afturelding er í fimmta sæti með 30.

Vicente Valor kom ÍBV yfir á 25. mínútu en Elmar Kári Enesson Cogic jafnaði á 44. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.

Oliver Heiðarsson kom ÍBV aftur yfir á 62. mínútu en Mosfellingar neituðu að gefast upp því Georg Bjarnason jafnaði á 72. mínútu og Arnór Gauti Ragnarsson gerði sigurmark Aftureldingar á 75. mínútu.

Þá vann Þróttur úr Reykjavík óvæntan og dramatískan 3:2-sigur á Keflavík á heimavelli.

Liam Daði Jeffs skoraði eina mark fyrri hálfleiks fyrir Þrótt á 30. mínútu. Axel Ingi Jóhannesson jafnaði á 53. mínútu, en Emil Skúli Einarsson kom Þrótti yfir á 65. mínútu, 2:1.

Mihael Mladen jafnaði í 2:2 á 79. mínútu en Sigurður Steinar Björnsson gerði sigurmark Þróttar á fjórðu mínútu uppbótartímans.

Keflavík er í fjórða sæti með 31 stig. Þróttur er í sjöunda sæti með 26.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert