Á ennþá inni gír

Jónatan Ingi Jónsson í baráttunni við Benedikt V. Wáren.
Jónatan Ingi Jónsson í baráttunni við Benedikt V. Wáren. mbl.is/Ólafur Árdal

Jónatan Ingi Jónsson leikmaður Vals átti góðan leik er Valur sigraði Vestra 3:1 í dag. Hann skoraði annað mark Vals og lagði upp það fyrsta.

Þrátt fyrir sigur var hann gagnrýninn á frammistöðu Vals í byrjun leiksins.

„Við erum náttúrulega einum fleiri mikinn meirihluta af leiknum og mér fannst við algjörir klaufar að hleypa þeim í 0:1,“ sagði Jónatan Ingi. „Við gerðum okkur dálítið sjálfum erfitt fyrir en sköpuðum samt meira en nóg af færum og hefðum átt að gera út um leikinn mikið fyrr.“

Fá of mikið af mörkum á sig

Jónatan Ingi er þó ánægður með hvernig leikur Vals er að þróast, en telur liðið þurfa að bæta ýmsa þætti, sérstaklega í varnarleiknum og nýtingu færa.

„Mér finnst vera betra tempó á boltanum,“ sagði hann. „Við þurfum svolítið að vera meira „klinikal“ í báðum boxunum. Við erum að fá of mikið af mörkum á okkur og ekki að skora úr nógu mörgum færum.“

Hann leggur áherslu á að næstu leikir séu lykilleikir fyrir Val. „Þetta eru sjö úrslitaleikir fyrir okkur eftir og það er bara næsti leikur núna á móti Víking.“

Finnst hann ennþá eiga gír inni

Jónatan Ingi hefur skorað ellefu mörk í deildinni þetta sumar, en hann telur sig samt geta gert enn betur.

Þegar hann er spurður út í hvernig honum finnst frammistaða sín hafa verið í sumar segir hann: „Hún er búin að vera fín, en ég gæti samt verið kominn með fleiri mörk og hjálpað liðinu enn meira,“ sagði hann. „Mér finnst ég ennþá eiga gír inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert