Betra liðið vann í dag

Rúnar Páll á hliðarlínunni í kvöld.
Rúnar Páll á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var svekktur eftir tap gegn FH, 3:2, í Árbænum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Fylkir komst tvisvar sinnum yfir í leiknum en tapaði að lokum.

„Já það er mjög svekkjandi, sérstaklega af því að mér fannst við bara mjög fínir í fyrri hálfleik og vorum með leikinn í okkar höndum. Við komum þannig séð alveg sáttir inn í hálfleik og fórum yfir það sem við ætluðum að gera betur en FH-ingarnir mættu bara þvílíkt grimmir í seinni hálfleikinn og tóku yfir. 

Við gáfum þeim allt of mikið af aukaspyrnum fyrir utan teiginn og úti á köntunum þar sem Kjartan Kári er með hrikalega öflugan fót. Þeir sköpuðu trekk í trekk hættu fyrir framan markið okkar og alltaf þegar við reyndum að fara eitthvað framar þrýstu þeir okkur til baka aftur. Þeir gerðu það bara hrikalega vel en við vorum að bjóða þeim uppá fullmikið af aukaspyrnum á hættulegum stöðum og óþarfa hornspyrnum. Þeir skora tvö mörk, bæði eftir hornspyrnu og aukaspyrnu og það er svolítið súrt að sjá það.

Við komumst kannski þrisvar eða fjórum sinnum aftur fyrir þá í seinni hálfleik. Þórður Gunnar kemst einn á móti markmanni en Böðvar gerði vel þar og Nikulás Val fékk fínt færi líka. FH-ingarnir bara kláruðu þetta vel og unnu þetta sanngjarnt.“

Eins og Rúnar segir var helsta ógn FH-inga föst leikatriði og segist Rúnar vera sáttur með ýmislegt í leik sinna manna úti á velli.

„Það var margt jákvætt í fyrri hálfleik hjá okkur og ég ætla ekki að segja neitt annað en að við reyndum hvað við gátum. Við reyndum að fara framar á völlinn og vinna boltann en þeir voru bara miklu ákveðnari en við. Mér fannst þeir fá að brjóta full mikið á okkur en ætla ekkert að vera að kvarta yfir því, mér fannst samt halla aðeins á okkur þar. Betra liðið vann bara í dag.“

Næsti leikur Fylkis er gegn Vestra á Ísafirði í rosalega mikilvægum leik. Þar mætast tvö af þremur neðstu liðum deildarinnar en Vestri er í 10. sæti með stigi meira en Fylkir.

„Það leggst bara vel í okkur. Vestri er með hörku lið og hafa sýnt það að þeir geta spilað frábæran fótbolta með öguðum varnarleik. Við þurfum bara að fara vestur og hafa trú á því að við getum unnið þann leik.“

Það stefnir allt í harða fallbaráttu allt fram í lokaumferð en einungis tvö stig skilja að fjögur neðstu liðin.

„Þetta er bara geggjuð deild. Fallbaráttan, toppurinn og miðjan. Það er verið að berjast á öllum vígstöðum. Þetta er bara bráðskemmtilegt og langt síðan þetta hefur verið svona öflugt. Mótið er í fullum gangi alls staðar og eins og ég hef sagt margoft áður, þá hættum við ekkert fyrr en það er búið að flauta síðasta leikinn af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert