„Við gerum okkur seka um einbeitingaleysi inn í vítateig og því fór sem fór,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, eftir 2:1-tap gegn toppliði Breiðabliks á Akranesi í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Skagamenn komust yfir en Blikum tókst að jafna metin og sigurmarkið kom svo á lokamínútu uppbótartímans.
„Mér Fannst við virkilega öflugir framan af leik og í raun og veru fram að 1:0 stöðunni, mér fannst við komast sanngjarnt yfir og gera það virkilega vel og eiga góðan hörkuleik móti frábæru liði en síðan finnst mér við síðustu 20 mínúturnar missa stjórn á því sem við vorum að gera sjálfir, ekki það að við misstum stjórn á Blikunum heldur okkur sjálfum.
Ég er svekktur með það og hvernig við vinnum okkar varnarvinnu í jöfnunarmarki Blika, við getum ekki leyft okkur svona á móti svona góðu liði og því miður höfðum við ekki orkuna til þess að ná aftur stjórn á leiknum og sækja sigurinn eftir það og svo er grátlegt að fá þessa vítaspyrnu á sig svona langt liðið í uppbótartímann og fá ekkert út úr þessu, það er hrikalega súrt,“ sagði Jón í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Skagamenn fengu tvö hörku færi strax í byrjun en náðu ekki að nýta þau né fleiri færi seinna í leiknum.
„Það segir sig sjálft að á móti þessum toppliðum þá verður þú að taka sénsana þína og við gerðum það ekki nógu oft í dag.“
ÍA er í fjórða sæti, í hörkubaráttu um mögulegt sæti í Evrópu.
„Auðvitað telja öll stig í þessu og við töpuðum þessum en við vorum að spila á móti frábæru Blikaliði og óska þeim til hamingju með sigurinn. Þeir gerðu virkilega vel þegar við misstum stjórn á því sem við vorum að gera þá nýttu þeir það mjög vel og eiga hrós skilið fyrir það.“