Féllu í gryfjuna að negla boltanum fram í stað þess að láta hann ganga

Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar.
Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Kristín Hallgrímsdóttir

„Okkar leikplan var ekki að halda stöðunni og það var ekki rætt enda ýtum við liðinu í hápressu til að sækja markið sem við þurftum, sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnukvenna eftir 1:2 tap fyrir Þrótti frá Reykjavík þegar liðin mættust í 18. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta í Garðabænum í dag.

Garðbæingar sóttu mikið þegar leið á leikinn en gættu ekki að sér þegar Þróttur skorar sigurmarkið á 90. mínútu. „Mér finnst aðallega vanta hreyfingu í sóknarleikinn hjá okkur því Þróttur er með góða vörn sem lokar svæðum og gefur ekki mikið pláss svo við hefðum þurft að mæta því með meiri hreyfingu og láta boltann ganga betur.  Svo föllum við jafnvel í þá gryfju að fara negla boltanum aftur fyrir vörn Þróttar í stað þess að láta boltann ganga.“

Hungraðir leikmenn fá tækifæri

Tapið gerir að verkum að Stjarnan missti 6. sæti deildarinnar til einmitt Þróttar og spilar fyrir vikið í neðri hluta keppninni með þremur neðstu liðunum í deildinni.  Garðbæingar eru þó ekki í fallhættu og þjálfarinn ætlar sér ekki að slaka. „Við getum enn farið upp stigatöfluna þó við séum í neðri hlutanum en það gefur fimm leiki til þess í efri hlutanum en bara þrjá í neðri hlutanum.  Við erum ekki í fallhættu svo það er jafnvel ekki eins mikið undir.  Við ætlum að sjálfsögðu í alla leikina til að vinna en svo eru hungraðir leikmenn sem hafa ekki fengið margar mínútur undanfarið, þeir eru feikilega sterkir svo ég á ekki von á öðru en þeir fái fleiri mínútur og stígi inn með sama krafti og aðrir leikmenn hafa gert.“

Leikmönnum fannst þeir skulda Kristjáni

Jóhannes Karl tók við þjálfun liðsins þegar Kristján Guðmundsson steig frá borði eftir 10. umferð en hann hafði þjálfað liðið í 6 ár. „Ég breytti ekki miklu og hluti af breytingunum kom frá leikmönnum sjálfum, sem bæta sig.  Þjálfaraskipti hafa samt alltaf áhrif á leikmenn, Kristján var búinn að vera með liðið í sex  ár og hópnum fundist líka skulda honum að bregðast við breytingunum með því að bæta sig.   Meðfram því voru áherslubreytingar – hvernig við verjumst og hvernig við sækjum.  Svo er oft þannig að breytingar að leikmenn ná að einbeita sér að breytingum inni á vellinum og minna að hugsa um stöðuna í deildinni.  Það hefur skilað sér í fleiri stigum,“ bætti Jóhannes Karl þjálfari við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert