FH lenti tvisvar undir en vann að lokum í Árbænum

Logi Hrafn Róbertsson stangar boltann.
Logi Hrafn Róbertsson stangar boltann. mbl.is/Ólafur Árdal

FH sótti mikilvægan sigur í Evrópubaráttunni í kvöld þegar liðið lagði Fylki, 3:2, í Árbænum í Bestu deild karla í knattspyrnu.

Leikurinn fór vægast sagt fjörlega af stað. Strax á annarri mínútu gerði Þórður Gunnar Hafþórsson vel hægra megin og fann Emil Ásmundsson í teignum. Hann lét vaða en skot hans, sem virtist vera á leið framhjá markinu, fór af Jóhanni Ægi Arnarssyni og í netið.

Einungis sex mínútum síðar voru gestirnir hins vegar búnir að jafna metin. Björn Daníel Sverrisson fékk boltann þá rétt fyrir utan teig og lét vaða en skot hans fór einnig af varnarmanni og í netið. Skot Björns var þó á leiðinni á markið og mun hann því fá þetta mark skráð á sig.

Fjórum mínútum síðar voru heimamenn þó komnir aftur yfir. Arnór Breki Ásþórsson tók þá hornspyrnu sem fór beint á kollinn á Orra Sveini Segatta sem stangaði boltann í netið. Orri Sveinn reis lang hæst í teignum og fékk svo gott sem frían skalla en varnarleikur gestanna var ekki til fyrirmyndar.

Eftir þriðja markið róaðist leikurinn töluvert og gekk boltinn talsvert á milli liðanna. Minna var um færi en FH-ingar voru þó líklegri til að skora en heimamenn. Björn Daníel átti til að mynda fastan skalla í þverslánna eftir hornspyrnu þegar rúmur hálftími var liðinn en Fylkismenn sluppu með skrekkinn. Einnig fengu Kjartan Kári Halldórsson og Bjarni Guðjón Brynjólfsson báðir fín færi í teignum en hvorugum tókst að hitta markið. 

Það voru því heimamenn sem fóru með eins marks forystu inn til búningsherbergja í hálfleik.

Þegar klukkutími var liðinn náðu gestirnir svo að jafna á nýjan leik. Kjartan Kári tók þá aukaspyrnu inn á teiginn þar sem Björn Daníel var á undan Ólafi Kristófer Helgasyni í boltann og skallaði hann í opið mark. Sannkallað skógarhlaup hjá Ólafi sem hafði annars staðið sig mjög vel í leiknum.

Rúmum 10 mínútum síðar mátti minnstu muna að heimamenn kæmust yfir í þriðja sinn. Matthias Præst tók boltann þá á lofti fyrir utan teig eftir hornspyrnu en skot hans small í þverslánni. Frábær tilraun og hefði líklegast verið eitt af mörkum sumarsins hefði boltinn endað í netinu.

Nikulás Val Gunnarsson fékk svo algjört dauðafæri þegar rétt rúmlega 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Ragnar Bragi Sveinsson gerði þá virkilega vel og laumaði boltanum svo í hlaupið hjá Nikulási inn á teignum en hann setti boltann framhjá markinu.

Á 82. mínútu var það svo varamaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen sem kom FH yfir gegn sínu gamla liði. Björn Daníel vann þá skallabaráttu eftir hornspyrnu og Arnór Borg kom boltanum yfir línuna af stuttu færi. Þetta reyndist sigurmark þessa fjöruga leiks og þrjú mikilvæg stig fóru því í Hafnarfjörðinn.

FH fer með sigrinum upp fyrir ÍA í fjórða sæti deildarinnar. Liðið er með 32 stig, þremur minna en Valur í þriðja sætinu. Fylkismenn eru hins vegar áfram á botni deildarinnar með 16 stig, einu stigi frá öruggu sæti og tveimur á eftir KR í 9. sætinu.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.



Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Liverpool 2:0 Brentford opna
90. mín. Bryan Mbuemo (Brentford ) fær gult spjald +4
Valur 3:1 Vestri opna
90. mín. Patrick Pedersen (Valur) skorar Lúkas Logi á sendingu inn á Patrick Pedersen sem sleppur einn í gegn hægra megin og klárar vel.
ÍA 1:2 Breiðablik opna
90. mín. Leik lokið
Fram 1:2 KA opna
90. mín. Harley Willard (KA) fær gult spjald 90+1

Leiklýsing

Fylkir 2:3 FH opna loka
90. mín. Böðvar Böðvarsson (FH) fær gult spjald Togar Guðmund Tyrfingsson niður til að stoppa skyndisókn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert