Held að þetta verði ekki sárara

Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar.
Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Steinn

„Ég held að þetta verði ekki sárara,“ sagði Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar eftir 1:2 tap fyrir Þrótti frá Reykjavík þegar liðin mættust í síðustu umferð deildarkeppni kvenna í fótbolta í Garðabænum í dag.  Tapið þýðir að Stjarnan missti af 6. sætinu og leikur í neðri hluta keppni Íslandsmótsins.

„Okkur gekk vel að undirbúa okkur fyrir þennan leik, höfum verið nokkuð traustar í síðustu leikjum og ætluðum að halda því áfram.  Mér fannst við alveg gera það en náðum ekki alveg að hafa stjórn á leiknum eins og í síðustu leikjum en þetta var samt alltaf að verða leikur, sem bæði lið gátu unnið og Þróttur er með sterkt lið. Við ætluðum bara að sækja til sigurs en það gekk ekki og þetta datt með Þrótti. Nú ætlum við bara að vinna þessa þrjá leiki í neðri hlutanum, það er okkar markmið og ekki flókið, sagði fyrirliðinn.

Stjörnukonur hafa haldið sig um miðja deild í sumar en gekk ekki nóg vel að skora auk þess að fá á sig mörg mörk svo skipt var um þjálfara eftir 10 umferðir. „Það hefur margt gengið á og svo voru þessi þjálfaraskipti.  Það gaf okkur svolítið byr undir báða vængi, við náðum að safna fleiri stigum og það var meiri stöðugleiki í liðinu, sem er jákvætt,“ bætti Anna María við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert