Níu leikir í Bestu deildunum í dag

Þróttur getur tryggt sér sæti í efri hlutanum.
Þróttur getur tryggt sér sæti í efri hlutanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heil umferð fer fram í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í dag og fjórir leikir í Bestu deild karla.

Breiðablik er í öðru sæti í Bestu deild kvenna og er aðeins einu stigi á eftir Val sem er með 46 stig í fyrsta sæti. Breiðablik fær Víking í heimsókn á Kópavogsvöll í 18. umferðinni en Víkingur er eina liðið fyrir utan Val sem hefur sigrað Breiðablik á tímabilinu. Víkingur er í fjórða sæti með 29 stig.

FH fær topplið Vals í heimsókn en FH er með 25 stig í fimmta sæti og hefur tryggt sér sæti í efri hluta deildarinnar.

Stjarnan og Þróttur mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í efri hlutanum í Garðabæ í dag. Þróttur verður að vinna en Stjörnunni dugir jafntefli. Liðin eru í sjötta og sjöunda sæti með 21 og 20 stig en sex efstu liðin fara í efri hlutann.

Tindastóll og Keflavík mætast í mikilvægum leik fyrir liðin en bæði eru í krefjandi fallbaráttu. Keflavík er með níu stig í neðsta sæti og Tindastóll með 12 í áttunda sæti.

Fylkir er með níu stig í níunda sæti, fyrir ofan Keflavík á markatölu, og fær Þór/KA í heimsókn í dag. Þór/KA er í þriðja sæti með 29 stig.

Allir leikir í Bestu kvenna fara fram klukkan 14.00 í dag.

Valur mætir Vestra og FH mætir Fylki í dag.
Valur mætir Vestra og FH mætir Fylki í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Bestu deild karla eru fjórir leikir en fyrsti leikur dagsins er klukkan 16:15 sem er Valur - Vestri á Hlíðarenda. Valur er í þriðja sæti í deildinni með 32 stig en fyrir ofan eru Víkingar og Blikar með 40 stig. Vestri er með 17 stig í 10. sæti, jafn mörg og HK er með í fallsæti.

ÍA og Breiðablik mætast á Akranesi klukkan 17.00, ÍA er í fjórða sæti með 31 stig en Breiðablik í öðru sæti, með jafn mörg stig og Víkingur en með slakari markatölu.

Fram og KA mætast í Úlfarsárdal klukkan 17.00. Fram er með 26 stig í 6. sæti og KA með 24 stig í áttunda og getur farið upp í efri hlutann með sigri.

Botnlið Fylkis mætir svo FH klukkan 19:15 sem er með 29 stig í fimmta sæti. Fylkir getur komist upp úr fallsæti með sigri og FH getur farið upp í fjórða með sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert