Sannfærandi Blikasigur á Víkingi

Markaskorarinn Kristín Dís Árnadóttir með boltann í dag.
Markaskorarinn Kristín Dís Árnadóttir með boltann í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Breiðablik og Víkingur áttust við í 18 umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag og lauk leiknum með sigri Breiðabliks, 4:0. Var þetta síðasti leikurinn í hefðbundinni deild en núna skiptist Besta deildin upp í efri og neðri hluta.

Blikakonur höfðu harma að hefna eftir að hafa tapað gegn Víkingum 2:1 í fyrri umferðinni. Þær byrjuðu leikinn af miklum krafti og settu fyrsta mark leiksins á 7. mínútu þegar bakvörðurinn Kristín Dís Árnadóttir skoraði með föstu skoti. Boltinn barst fyrir mark Víkinga og þar var mikil barátta, boltinn var hreinsaður út úr teignum og þar mætti Kristín og setti boltann í bláhornið. Staðan 1:0 fyrir Breiðablik.

Blikakonur voru nálægt því að tvöfalda forystuna á 12. mínútu leiksins þegar Andrea Rut Bjarnadóttir átti fína fyrirgjöf fyrir mark Víkinga en Birta Georgsdóttir náði ekki til boltans í stórhættulegu færi.

Á 28. mínútu vann Birta Georgsdóttir boltann inni í teig Víkinga og virtist vera að koma sér í dauðafæri en Erna Guðrún Magnúsdóttir braut á henni og víti réttilega dæmt. Katrín Ásbjörnsdóttir fór á vítapunktinn en Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir varði vel frá Katrínu.

Á 45. mínútu fengu blikakonur algjört dauðafæri þegar skot Vigdísar Lilju Kristjánsdóttur fór rétt framhjá markinu eftir glæsilega stungusendingu frá Katrínu Ásbjörnsdóttur.

Í uppbótartíma gerðu Blikakonur harða atlögu að marki gestanna með tveimur skotum frá Samönthu Smith en boltinn vildi ekki í markið. Staðan í hálfleik 1:0 fyrir Breiðabliki sem hefði auðveldlega getað verið meiri.

Blikakonur voru ekki lengi að láta til sín taka. Á 47. mínútu tvöfölduðu þær forystuna þegar Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði eftir stungusendingu frá Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur. Staðan 2:0 fyrir Blika.

Tveimur mínútum síðar snerist dæmið við þegar Blikakonur komust í 3:0. Þá gaf Andrea Rut stungusendingu inn á Vigdísi Lilju sem skoraði af öryggi. Staðan 3:0.

Blikakonur voru ekki hættar. Á 61. mínútu leiksins komst Andrea Rut í dauðafæri en Sigurborg Katla varði skot hennar. Boltinn barst til Katrínar Ásbjörnsdóttur sem kom boltanum í netið og staðan orðin 4:0 fyrir Breiðabliki.

Á 64. mínútu kom Agla María Albertsdóttir inn á í liði Blika en hún er búin að vera frá vegna meiðsla.

Á 75. mínútu gerðu bæði lið þrefalda skiptingu. Það breytti litlu fyrir gang leiksins því blikakonur héldu áfram að þjarma að marki Víkinga. Á 81. mínútu fékk Breiðablik hornspyrnu. Boltinn barst fyrir markið og Katrín Ásbjörnsdóttir skallaði boltann rétt framhjá.

Víkingskonur reyndu að minnka muninn á 90. mínútu þegar þær fengu hornspyrnu. Boltinn  barst inn í teig þar sem Shaina Ashouri skallaði að marki en Telma Ívarsdóttir varði vel í liði Blika.

Lokatölur á Kópavogsvelli 4:0 fyrir Breiðablik sem er ennþá stigi á eftir Val þegar deildin skiptist í tvennt. Það er því von á hörkubaráttu milli Breiðablik og Vals um Íslandsmeistaratitilinn.  

Breiðablik 4:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Shaina Ashouri (Víkingur R.) á skalla sem er varinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert