Sár og svekktur

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, ræddi við mbl.is eftir 2:1-ósigur liðsins gegn KA á heimavelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Staðan var 1:1 vel framan af leik og bæði lið fengu sín færi til að tryggja stigin þrjú en þegar tíðindaminni seinni hálfleik var að ljúka þá átti sér stað umdeilt atvik á 88.mínútu þar sem að boltinn fór í hönd varnarmanns KA í hans eigin vítateig. Dómarinn mat stöðuna þannig að ekki hefði átt sér stað leikbrot og fljótlega eftir það geystust KA-menn í sókn og skoruðu sigurmark í blálok leiks.

Rúnar var eðlilega svekktur með niðurstöðuna.

„Maður er auðvitað sár og svekktur og ég vildi auðvitað fá víti. Það er mat dómarans að þetta er ekki víti. Hendi eða ekki hendi, menn virðast ekki vita það og einnig margir fótboltaáhugamenn, menn virðast ekki alveg hafa það á hreinu hvenær á að dæma hendi.

Oft er þetta matsatriði og dómarinn metur þetta þannig. Svo fara KA menn upp hinum megin og þar kemur fyrirgjöf og skallamark. Við verjumst þeirri sókn illa og þar eru atriði sem við getum lagað. Við getum ekki kennt dómaranum um okkar ófarir. Dómarinn (Vilhjálmur Alvar Þórarinsson) dæmdi ágætlega og flottur leikur.

Mér fannst við vera mjög góðir í fyrri hálfleik, stýrðum leiknum mjög vel og ógnuðum KA. Svo var þetta töluvert jafnara í síðari hálfleik. Ég er fúll með að tapa því jafntefli hefði verið sanngjörn úrslit. Það er rosalega fúlt að tapa þessu svona þegar maður vill fá víti en svo skora þeir í kjölfarið."

Rúnar þurfti að gera þó nokkrar breytingar frá síðasta leik en liðið hefur orðið fyrir skakkaföllum vegna meiðsla leikmanna. Aðspurður um stöðuna á liðinu hafði Rúnar þetta að segja.

„Við höfum verið svolítið óheppnir síðustu tvær vikurnar, Kyle McLagan er ekki með í dag, Jannick hefur ekki verið með í allt sumar vegna meiðsla. Tryggvi er frá vegna meiðsla sem og Tiago og Sigfús. Már er farinn erlendis í nám og við erum búnir að selja Breka og Viktor Bjarka til Danmerkur þannig að það eru ofboðsleg meiðsli og forföll á hópnum okkar.

Sumir leikmenn á bekknum voru bara þarna til að fylla uppí og það var ekki möguleiki fyrir mig að setja þá inná. Við höfum þurft að finna mannskap með því að leita djúpt inní annan flokk. En við erum með flottan og samheldinn hóp en þessi áföll koma á skelfilegum tíma," sagði Rúnar að lokum við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert