Tæpt var það og Þróttur í efri hlutann

Andrea Mist Pálsdóttir úr Stjörnunni með boltann gegn Þrótti.
Andrea Mist Pálsdóttir úr Stjörnunni með boltann gegn Þrótti. Eyþór Árnason

Sigurmark á 90. mínútu tryggði Þróttarakonum 2:1 sigur á Stjörnunni í dag þegar barist var um 6. sæti efstu deildar kvenna í fótbolta í Garðabænum í dag því þessu 6. sæti fylgdi sæti í efri hluta keppni deildarinnar.

Fyrsta korterið mátti vel greina að hvorugt liðið ætlaði að fá á sig mark, sem var á kostnað sóknarinnar.  Eftir það fóru Garðbæingar að ná undirtökunum en vantaði samt dauðafærin eða þrumuskotin.

Á 18. mínútu brotnaði svo ísinn þegar Þróttarkonum virtist alveg fyrirmunað að koma boltanum út úr teignum í þungri sókn Garðbæinga en loks datt boltinn fyrir Jessicu Ayers, sem var ein á markteigslínu ein á móti Mollee Swift í markinu, sem gat ekki stokkið fyrir skotið.  Staðan 1:0.

Eftir markið tóku gestirnir úr Laugardalnum aðeins við sér, komu sér framar á völlinn og reyndu skot en vörn Garðbæinga var alltof sterk til að leyfa nein skot nálægt markinu og leyfði engum að komast í gegnum vörnina.  Það  var því eitthvað um skot á báða bóga en ekkert af þeim skapaði neina hættu.

Síðan brást vörn Stjörnunnar á 38. mínútu þegar Caroline Murray komst upp að endalínu vinstra megin og gaf glæsilega fyrir inn í miðjan vítateig, þar sem Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir afgreiddi boltann viðstöðulaust í markið.  Flott færi, flott mark og staðan jöfn, 1:1.

Síðasta færið fyrir hlé átti Garðbæingurinn Hrefna Jónsdóttir þegar fast skot hennar utan teigs fór á markið en Mollee í marki Þróttar var vel á verði.

Fyrsta færið eftir hlé varð Garðbæinga og kom á 49. mínútu þegar Andrea Mist Pálsdóttir átti hörkuskot utan teigs en boltann rétt framhjá marki Þróttar og á 57. mínútu átti Sæunn Björnsdóttir hörkuskot að marki Stjörnunnar.

Næsta umtalsverða færið var á 62. mínútu þegar Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir komst upp í skyndisókn með varnarmann Þróttar fast á hæla sér, náði samt að komast inn í vítateig en þar kom Mollee markmaður á móti henni og varði.

Síðan leið og beið, mikið hlaupið á vellinum en færin létu bíða eftir sér.

Næsta færið var  Þróttara þegar Freyja Karín Þorvarðardóttir fékk sendingu frá vinstri kanti, kastaði sér fram  og skallaði úr markteig rétt framhjá stönginni á 79. mínútu.

Það kom smá kraftur í leikinn undir lokin og 81. mínútu átti Jessica hörkuskot að marki Þróttar en Mollee í markinu náði að slá boltann yfir. Rétt á eftir skallaði Hannah líka á mark Þróttar en boltinn rétt yfir slánna.

Svo kom sigurmark Þróttar á 90. mínútu.  Þá komst Þróttur í sókn og Ísabella Anna Húbertsdóttir rakti  boltann upp völlinn, vörn Stjörnunnar beið eftir henni en þá sending á hægri kant þar sem Sóley María Steinarsdóttir kom úr vörninni og rétt komin inn í vítateig skaut hún í vinstri stöngina og inn.  Staðan 1:2.

Svo fór um sjóferð þá.  Þróttur tók 6. sætið af Stjörnunni, komst fyrir vikið upp í efri hlutann  og mætir þar Val næsta föstudag en Stjarnan mætir Keflavík í Garðabænum eftir viku, næsta sunnudag.

Kálið er samt ekki sopið þó í ausuna sé komið því þó sé afar tæpt að Stjarnan eða Þróttur falli með öll sín stig er ekki á vísan að róa í fótboltanum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Fylkir 2:2 Þór/KA opna
90. mín. Leik lokið +6 - Þetta er búið hér í Árbænum. Lokatölur eru 2:2 í virkilega skemmtilegum leik.
Breiðablik 4:0 Víkingur R. opna
90. mín. Leik lokið Öruggur Blikasigur staðreynd.
Tindastóll 1:1 Keflavík opna
90. mín. Kristrún Ýr Holm (Keflavík) fær gult spjald
FH 2:4 Valur opna
93. mín. Leik lokið
Liverpool 1:0 Brentford opna
40. mín. Christian Nörgaard (Brentford ) fær gult spjald Fyrir brot á Díaz.
Valur 0:0 Vestri opna
Engir atburðir skráðir enn
Fram 0:0 KA opna
Engir atburðir skráðir enn
ÍA 0:0 Breiðablik opna
Engir atburðir skráðir enn

Leiklýsing

Stjarnan 1:2 Þróttur R. opna loka
90. mín. +3 í uppbót.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert