Það er skelfilegt mál

Liðsmenn Þórs/KA fengu eitt stig gegn Fylki.
Liðsmenn Þórs/KA fengu eitt stig gegn Fylki. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, var ekki sáttur með niðurstöðuna í Árbænum en Þór/KA gerði 2:2 jafntefli við Fylkir í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag.

„Þetta var hörku leikur, það gekk mikið á og auðvitað mikið undir. Ég hefði viljað sigur í dag. Svona leik eigum við að klára en því miður höfum við aðeins verið að ströggla í síðustu leikjum og ekki náð að klára þessa leiki. Saga fyrri hálfleiksins er auðvitað sú að við erum mun meira með boltann og erum að skapa okkur fín færi en þrátt fyrir það er Fylkir 2:1 yfir í hálfleik. Svona hefur þetta verið undanfarið en ég er alveg rólegur. Þetta gerist stundum hjá liðum, meira að segja hjá þeim allra bestu bæði hér og erlendis.

Stundum sveiflast bara hlutir í einhverja átt og það getur verið erfitt að sveifla þessu í réttu áttina. Það sem gerist er bara er að þegar við erum búin að skora gott mark og komast yfir þá náum við ekki að svæfa leikinn og ganga á lagið og Fylkisstelpur bara með dugnaði ná að jafna metin og þær fara að hlaupa aðeins meira og það kemur högg á okkur. Við erum eitthvað að reyna að díla við það en þær bara ganga á lagið og gera þetta bara mjög vel og komast yfir og eiga það bara skilið,“ sagði Jóhann Kristinn eftir leik við blaðamann mbl.is.

Ertu sáttur með þriðja sætið í þessari hefðbundnu deildarkeppni?

„Já, það er erfitt fyrir önnur lið en Val og Breiðablik að vera í efstu sætunum. Þar hafa þau verið síðustu ár. Þau eru auðvitað með svakalega hópa og þetta eru frábær lið, mikið af stórum nöfnum. Þessi lið geta hreinlega valið úr góðum leikmönnum þannig að vera á eftir þessum liðum verðum við að vera mjög ánægð með. Það er bara hrós á okkar lið að vera liðið sem er best eftir 18 leiki fyrir utan Meistaradeildarliðin okkar“, sagði Jóhann Kristinn einnig.

Er erfitt að fá stelpur norður að spila?

„Við erum ekki mikið að skoða þennan markað hérna fyrir sunnan. Við fáum Bryndísi lánaða úr Val. Sem er búinn að vera alveg frábær enda af góðum ættum. Við teljum okkur bara vera með það góðar stelpur á Akureyri sem við teljum vera alveg jafn góðar og jafnvel betri en þær sem eru að losna frá öðrum liðum. Það er bara ekki markaðurinn okkar. Við notum bara okkar stelpur í staðinn og reynum að þróa þær“, bætti Jóhann Kristinn við.

Hvaða skoðun hefur þú á þessari skiptingu í Bestu deild kvenna?

„Ég ætla að viðurkenna það að ég hef tekið þátt í ansi mikið af umræðum um þessa skiptingu. Það eru allir alltaf að fá einhverjar nýjar hugmyndir. Ég geri mér grein fyrir því hvað gerist ef deildinni yrði skipt í tvennt og það yrðu fimm efstu og fimm neðstu en það yrði samt eðlilegra. Ég þakka bara fyrir að vera ekki í neðri hlutanum. Það er skelfilegt mál. Ég held að við þurfum að fá fleiri leiki.

Ég er búinn að sveiflast aðeins til og frá í því hvort við eigum að fjölga liðum í tólf í deildinni eða fækka í átta lið en miðað við styrk fyrstu deildarinnar núna þá ættum fyrst að reyna að fjölga í deildinni en að fækka í deildinni. Það komin reynsla á það í Bestu deild karla og það virðist vera að virka þar þannig að við ættum að fara í tólf liða deild og gera eins og í Bestu deild karla,“  sagði Jóhann Kristinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert