Þetta er virkilega sætt

Hallgrímur Jónasson var kátur með góðan sigur.
Hallgrímur Jónasson var kátur með góðan sigur. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var að vonum sigurreifur eftir sætan 2:1-sigur gegn Fram á útivelli í Bestu deildinni í kvöld.

Sigurmark KA kom alveg í blálokin á leiknum þegar framherjinn Dagur Ingi Valsson, sem var keyptur á dögunum frá Keflavík, skoraði með góðum skalla og tryggði norðanmönnum öll þrjú stigin. KA fór uppí 6. sæti með sigrinum, stigi á undan Fram en 6. sætið gefur sæti í efra umspili deildarinnar.

Hallgrímur var spurður hvernig upplifunin var í lokin;

„Þetta var virkilega sætt, frábært mark alveg í lokin. Þetta var einstaklega sætt, sérstaklega þar sem við spiluðum ekki alveg nógu vel í leiknum. Við fengum færi til að skora, hefðum getað skorað 2-3 en frammistaðan var ekki alveg eins og ég vonaðist til.

Pressan var ekki alveg nógu góð, og þegar við unnum boltann þá áttum við að vera betri að spila út úr fyrstu pressu hjá þeim, vera aðeins þolinmóðari. En stundum er það þannig að þegar hlutirnir ganga ekki alveg upp þá snýst þetta um karakterinn í liðinu. Við erum með fullt af karakterum, fullt af strákum að norðan sem standa saman. Við hlaupum og hlaupum og verjumst og þá gefurðu sjálfum þér möguleika á að vinna leiki þó að hlutirnir gangi ekki upp alls staðar á vellinum. Það er frábært að það hafi tekist í dag.

Það er langt síðan við höfum tapað og við erum komnir í efri hlutann og við erum virkilega ánægðir með það. En við ætlum að vera með betri frammistöðu í næsta leik og það er nóg eftir," sagði Hallgrímur að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert