Þetta var fullstórt

Blikarnir tveir Barbára Sól Gísladóttir, til vinstri, og Karitas Tómasdóttir …
Blikarnir tveir Barbára Sól Gísladóttir, til vinstri, og Karitas Tómasdóttir ásamt Víkingunum Emmu Steinsen Jónsdóttur og Birtu Birgisdóttur. mbl.is/Ólafur Árdal

Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir markvörður Víkinga var ekki mjög brött þegar mbl.is náði tali af henni strax eftir leik Breiðabliks og Víkinga í dag.

Spurð hvort hún ætti skýringar á svona stóru tapi gegn blikum í dag sagði Katla eins og hún kýs að láta kalla sig þetta:

„Já þetta var fullstórt. Við komum í þennan leik til að ná stigum og ætluðum okkur að reyna vinna okkur upp í þriðja sætið en það gekk ekki í dag."

Þið vinnið Breiðablik á ykkar heimavelli fyrr í sumar 2:1 en tapið svo 4:0 í dag. Áttu einhverjar skýringar á þessum viðsnúning hjá ykkur milli þessara tveggja leikja?

„Nei í raun ekki. Við vorum ekki upp á okkar besta í dag og vorum ekki að spila okkar fótbolta. Það er í raun ekki flóknara en það."

Þið fáið á ykkur víti í stöðunni 1:0 sem þú nærð að verja vel. Þá bjóst maður kannski við einhverri viðspyrnu frá Víkingum en það gerðist ekki.

„Nei augnablikið einhvern veginn kom ekki með okkur. Ég hélt líka að á þessum tímapunkti myndum við komast inn í leikinn en það bara tókst ekki. Þetta var bara stöngin út."

Nú skiptist deildin upp í efri og neðri deild. Víkingar eru í fjórða sæti og eiga möguleika á að vinna sig upp í þriðja sætið. Það hlýtur þá að vera markmiðið eða hvað?

„Jú við förum í alla leiki til að vinna þá og í ljósi stöðunnar er þriðja sætið það efsta sem við getum náð og þá er það markmiðið," sagði Katla í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert