Jafnt í fallslagnum á Króknum

Birgitta Rún Finnbogadóttir úr Tindastóli og Salóme Kristín Róbertsdóttir hjá …
Birgitta Rún Finnbogadóttir úr Tindastóli og Salóme Kristín Róbertsdóttir hjá Keflavík eigast við í dag. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Tindastóll og Keflavík gerðu jafntefli, 1:1, þegar liðin áttust við í fallslag í 18. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í dag.

Staðan er enn óbreytt fyrir bæði lið þar sem Tindastóll er í áttunda sæti með 13 stig og Keflavík er á botninum með 10 stig, jafnmörg og Fylkir sæti ofar. Nú verður deildinni skipt í efri og neðri hluta þar sem öll þrjú liðin verða ásamt Stjörnunni.

Leikurinn fór rólega af stað en Keflavík náði forystunni með fyrsta skoti leiksins á níundu mínútu.

Saorla Miller fór þá illa með Elise Morris og sneri hana af sér, lék með boltann inn í vítateig hægra megin, lagði boltann til hliðar á Marín Rún Guðmundsdóttur sem tók vel við honum utarlega í vítateignum miðjum og þrumaði boltanum svo niður í vinstra hornið.

Var þetta fyrsta deildarmark Marínar Rúnar í 11. leik sínum á tímabilinu.

Eftir markið náði Tindastóll ágætis stjórn á leiknum og hóf að skapa sér fjölda færa. Jordyn Rhodes fékk þau bestu en hún skaut framhjá af nærsvæðinu hægra megin eftir laglegan sprett Anniku Haanpää á 25. mínútu.

Fjórum mínútum síðar féll boltinn svo fyrir hana eftir að Anitu Lind Daníelsdóttur mistókst að hreinsa frá, en vinstri fótar skot Rhodes á lofti fór rétt framhjá markinu.

Á 37. mínútu vildu Stólarnir fá vítaspyrnu þegar Hugrún Pálsdóttir tók skot vinstra megin úr vítateignum eftir laglega sókn, Caroline Van Slambrouck henti sér fyrir skotið og fór boltinn í höndina á henni. Ekkert var þó dæmt.

Tveimur mínútum síðar átti Kristrún Ýr Hólm gott skot við D-bogann sem Monica Wilhelm varði laglega aftur fyrir endamörk.

Miller fékk svo síðasta færi fyrri hálfleiks í uppbótartíma þegar Anita Lind átti hættulega sendingu fram völlinn, Miller var sloppinn ein í gegn vinstra megin í vítateignum, tók skotið en Wilhelm gerði mjög vel í að loka á hana og varði.

Staðan var því 0:1, Keflavík í vil, í leikhléi.

Glæsilegt jöfnunarmark

Keflavík hóf síðari hálfleikinn af krafti og settu Tindastól undir mikla pressu. Það voru hins vegar heimakonur sem jöfnuðu metin á 48. mínútu.

Boltinn hrökk þá til hinnar 16 ára gömlu Elísu Bríetar Björnsdóttur, hún tók viðstöðulaust skot úr D-boganum sem söng uppi í markvinklinum hægra megin, glæsilegt mark og staðan orðin jöfn, 1:1.

Þetta var fjórða mark Elísu Bríetar í Bestu deildinni í ár, í 16. leiknum.

Rhodes hélt áfram að minna á sig og skaut yfir af stuttu færi á 54. mínútu eftir að hafa fengið góða fyrirgjöf frá Laufeyju Hörpu Halldórsdóttur af vinstri kantinum.

Eftir þessa fjörugu byrjun róaðist leikurinn töluvert. Á 71. mínútu gerði Miller sig líklega hægra megin í vítateignum, kom boltanum til hliðar á Marín Rún sem náði skoti úr markteignum undir pressu varnarmanns og Wilhelms sem var mætt og varði.

Tæplega stundarfjórðungi fyrir leikslok fékk Rhodes svo enn eitt færið þegar hún náði skoti vinstra megin í vítateignum. Það fór hins vegar af varnarmanni og aftur fyrir endamörk.

Rhodes og varamaðurinn Aldís María Jóhannsdóttir gerðu sig líklegar í sömu sókninni undir lokin en eftir mikinn darraðardans og skot frá þeim báðum í vítateignum hafnaði boltinn í fanginu á Veru Varis í marki Keflavíkur.

Fleiri urðu færin ekki og sættust liðin að lokum á jafnan hlut.

Tindastóll 1:1 Keflavík opna loka
90. mín. +1 Mikill darraðardans í teig Keflvíkinga þar sem Aldís María og Rhodes reyna skot en boltinn berst að lokum í fang Varis.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert