Alfreð leggur landsliðsskóna á hilluna

Alfreð Finnbogason hefur leikið sinn síðasta landsleik.
Alfreð Finnbogason hefur leikið sinn síðasta landsleik. Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Alfreð Finnbogason hefur lagt landsliðsskóna á hilluna en hann gaf út tilkynningu þess efnis á Instagram í kvöld.

Í tilkynningunni þakkar hann kærlega fyrir frábærar minningar með landsliðinu og að nú sé réttur tími til að stíga til hliðar.

Alfreð, sem er 35 ára gamall framherji og uppalinn hjá Breiðabliki, leikur með Eupen í Belgíu. Hann lék 73 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 18 mörk. Hann er fjórði markahæsti leikmaðurinn í sögu landsliðsins.

Varð hann fyrsti Íslendingurinn til að skora á lokamóti HM er hann jafnaði gegn Argentínu í 1:1-jafnteflinu á mótinu í Rússlandi árið 2018. Hann lék einnig á lokamóti EM í Frakklandi tveimur árum áður. 

Síðasti landsleikur Alfreðs var útileikur gegn Portúgal 19. nóvember á síðasta ári í undankeppni EM 2024. Síðasta markið kom gegn Slóvakíu 17. júní í sömu keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert