Alltaf markmiðið að enda í efri hlutanum

Emil Atlason í leiknum í kvöld.
Emil Atlason í leiknum í kvöld. Eyþór Árnason

Emil Atlason leikmaður Stjörnunnar var kátur með 2:0 sigur gegn HK í Bestu deild karla í fótbolta þegar mbl.is náði tali af honum strax eftir leik. Spurður að því hvað skóp sigurinn í kvöld sagði Emil þetta:

„Flottur leikur að mörgu leiti. Við spiluðum vel og gáfum fá færi á okkur. Þeir fengu kannski eitt dauðafæri úr föstu leikatriði sem er þeirra styrkleiki. Við vorum duglegir að spila og hreyfa okkur og uppskárum góðan sigur."

Miðað við hvernig leikurinn spilaðist myndir þú þá segja að þetta væru sanngjörn úrslit?

„Já mér finnst það. Alveg klárlega. Þeir eru lið sem fara hátt og langt. Þeir eru með stóra og sterka menn fram á við sem okkur tókst að leysa mjög vel í dag og mér fannst við bara vera mjög flottir í þessum leik."

Næsti leikur hjá ykkur er gegn FH í Kaplakrika. Eftir þennan leik þá takið þið stökk yfir KA og Fram upp í sjötta sætið. Ertu bjartsýnn á að Stjarnan nái að halda sér í efri hlutanum áður en að deildin skiptist upp?

„Það er alltaf markmiðið að enda í efri hlutanum, ekki spurning. Næsta mál er bara að ná þremur stigum á móti FH og ef það tekst þá erum við skrefi nær því fyrir lokaleikinn gegn Vestra," sagði Emil í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert