Selfyssingar nánast komnir upp

Gonzalo Zamorano, til vinstri, skoraði tvö.
Gonzalo Zamorano, til vinstri, skoraði tvö. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Selfoss þarf eitt stig úr síðustu þremur umferðunum í 2. deild karla í fótbolta til að fara beint aftur upp í 1. deild. Liðið gerði góða ferð í Hafnarfjörðinn í kvöld og lagði Hauka, 2:1, á Ásvöllum.

Spánverjinn Gonzalo Zamorano sá um að gera bæði mörk Selfoss, það fyrra strax á annarri mínútu og það seinna úr víti á 55. mínútu. Theodór Ernir Geirsson gerði mark Hauka er hann klóraði í bakkann í uppbótartíma.

Selfoss er nú með 44 stig, níu stigum meira en Þróttur úr Vogum og Víkingur frá Ólafsvík sem eru í þriðja og fjórða sæti. Tvö efstu liðin fara upp. Völsungur er í öðru sæti með 36 stig og stefnir í mikla baráttu liðanna þriggja um annað sætið.  

Selfyssingar fá tækifæri til að gulltryggja sér sætið í 1. deild er liðið mætir Hetti/Hugin á heimavelli næstkomandi laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert