Verðum bara að gera þetta sjálfir

Christoffer Petersen, Ómar Ingi Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson voru svekktir …
Christoffer Petersen, Ómar Ingi Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson voru svekktir eftir leik. Eyþór Árnason

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK var svekktur eftir tap gegn Stjörnunni í Garðabæ í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. HK hefði getað lyft sér upp úr fallsæti með sigri en það tókst ekki í kvöld. Við ræddum við Leif strax eftir leik og spurðum hann út í leikinn:

Fyrsta markið kemur í raun gegn gangi leiksins. Hvað klikkaði í varnarleiknum í markinu?

„Það kom fín fyrirgjöf á milli hafsent og bakvarðar sem síðan berst að Ívari sem nær að hreinsa frá en Örvar nær að setja löppina fyrir og koma honum í markið. Við hefðum átt að stoppa þetta í fæðingu þegar fyrirgjöfin kom."

HK fékk samt sín færi til að skora í þessum leik en það tókst ekki. Getur þú útskýrt afhverju?

„Mér fannst við vera hættulegir þegar við komum boltanum inn í teig. Það vantaði einhvern veginn alltaf bara eina sendingu eða svona lokahnykk. Mér fannst þetta vera alveg 50/50 leikur og svekkjandi að fá ekki neitt út úr honum."

Leifur Andri Leifsson
Leifur Andri Leifsson Morgunblaðið/Óttar Geirsson

Þú lætur heyra vel í þér þegar Stjarnan skorar seinna markið og hlítur að launum gult spjald. Hverju varstu að mótmæla?

„Emil Atlason er rangstæður og er að garga nafnið sitt og trufla. Hann var aldrei að fara upp í þennan bolta en hefur samt áhrif með því að bregða og öskra og ég hélt bar að það mætti ekki en ég talaði við Jóhann Inga áðan og hann sagði að það mætti hafa áhrif á leikinn með þessum hætti."

Síðan vilja leikmenn HK fá vítaspyrnu þegar Sigurður Gunnar heldur Atla Þór innan teigs en Jóhann Ingi dæmdi ekki. Hvað fannst þér um það?

„Mér fannst þetta vera víti, sérstaklega í ljósi þess að hann dæmdi á nákvæmlega sama hlutinn utan teigs á okkur nokkrum sekúndum seinna. En dómaranum fannst þetta ekki nægilega mikið tog. En það er ekkert hægt að vera tuða yfir dómaranum yfir svona. Við verðum bara að gera þetta sjálfir en vissulega hefði það breytt miklu ef við hefðum fengið víti."

Næsti leikur er gegn Fram í Kórnum. Fram er komið í neðri hlutann núna og ef staðan breytist ekki þá eigið þið eftir að spila við þá aftur eftir næstu umferð.

„Núna förum við í alla leiki til að vinna. Við höfum engu að tapa. Mér finnst vera kominn annar bragur í liðið. Við spiluðum ekkert illa í dag og leikurinn á móti KR breytti helling hjá okkur og það sást alveg í dag þó við höfum ekki unnið. Við þurfum bara að fórna öllu og setja allt í leikina. Við erum spenntir að mæta Fram í Kórnum, við unnum þá í fyrri umferðinni og vonandi gerum við það bara aftur núna," sagði Leifur í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert