Tindastóll fær leikmann 13 dögum eftir gluggalok

Erica Cunningham styrkir Tindastól fyrir fallbaráttuna.
Erica Cunningham styrkir Tindastól fyrir fallbaráttuna. Ljósmynd/Blackburn

Knattspyrnukonan Erica Cunningham er komin með leikheimild hjá Tindastóli, þrettán dögum eftir að félagaskiptaglugganum var lokað.

Cunningham er 31 árs varnarmaður. Hún er fædd í San Francisco í Bandaríkjunum en hefur leikið með landsliði Níkaragva.

Hún hóf atvinnumannaferilinn með Lugano og Zürich í Sviss. Þá hefur hún einnig leikið með Norrköping í Svíþjóð, Blackburn á Englandi og Eastern Flames í Sádi-Arabíu. 

„Þetta festist aðeins í kerfinu og við höfum verið að bíða eftir FIFA,“ sagði Donni Sigurðsson þjálfari Tindastóls í samtali við Fótbolta.net.

Tindastóll á aðeins þrjá leiki eftir af tímabilinu en liðið er sem stendur í áttunda sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert