Ekkert pláss fyrir Aron Einar og Gylfa Þór

Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson leika báðir á …
Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson leika báðir á Íslandi þessa dagana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson eru ekki á topp 10 listanum yfir bestu knattspyrnumenn Íslandssögunnar hjá vefmiðlinum Give Me Sport.

Listinn var birtur í sumar hjá miðlinum sem sérhæfir sig í fótboltaumfjöllun, sem og umfjöllun um bandarískar íþróttir.

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrverandi fyrirliði karlalandsliðsins og leikmaður Barcelona og Chelsea, trónir á toppi listans og Atli heitinn Eðvaldsson er í öðru sætinu.

Markahæstur í sögu landsliðsins

Ásgeir Sigurvinsson er í því þriðja og Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs Smára, kemur þar á eftir í fjórða sætinu en listann má sjá í heild sinni með því að smella hér.

Aron Einar lék síðast með landsliðinu í nóvember á síðasta ári og er þriðji leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi ásamt Birki Má Sævarssyni en báðir hafa leikið 103 A-landsleiki.

Gylfi Þór sneri aftur á knattspyrnuvöllinn eftir tveggja ára fjarveru, síðasta vor, þegar hann samdi við Val en hann á að baki 80 A-landsleiki og er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.

Snúa þeir aftur í landsliðið?

Aron Einar og Gylfi Þór voru báðir lykilmenn í landsliðinu sem fór á tvö stórmót, EM 2016 í Frakklandi og HM 2018 í Rússlandi, og því kemur fjarvera þeirra á listanum mikið á óvart.

Åge Hareide tilkynnir leikmannahóp sinn fyrir komandi landsleiki gegn Svartfjallalandi og Tyrklandi í Þjóðadeildinni í hádeginu klukkan 13 og búast flestir við því að Aron og Gylfi verði í hópnum.

10 bestu knattspyrnumenn Íslands samkvæmt GiveMeSport:

1. Eiður Smári Guðjohnsen
2. Atli Eðvaldsson
3. Ásgeir Sigurvinsson
4. Arnór Guðjohnsen
5. Jóhann Berg Guðmundsson
6. Ríkharður Jónsson
7. Albert Guðmundsson [eldri]
8. Alfreð Finnbogason
9. Hannes Þór Halldórsson
10. Guðni Bergsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert