Knattspyrnumaðurinn Kristian Nökkvi Hlynsson, leikmaður Ajax í hollensku úrvalsdeildinni, er ekki í íslenska landsliðshópnum sem mætir Svartfjallalandi og Tyrklandi í Þjóðadeildinni vegna meiðsla.
Þetta tilkynnti Åge Hareide, þjálfari íslenska liðsins, á fjarfundi með fjölmiðlamönnum í dag en Kristian, sem er tvítugur, hefur leikið tvo leiki í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og skorað eitt mark.
Hann hefur verið í landsliðshópnum að undanförnu og á að baki tvo A-landsleiki.
„Kristian hefur verið að glíma við smávægileg vöðvameiðsli,“ sagði Hareide á fjarfundinum.
„Þessi meiðsli hafa verið að trufla hann í einhvern tíma. Ég ræddi við Ajax í gær og það varð sameiginleg niðurstaða að gefa honum tíma til þess að jafna sig af þeim meiðslum sem hafa verið að hrjá hann.
Hann er ekki 100 prósent heill og þá er betra að velja hann ekki,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.