„Fínt fyrir budduna hans Orra en ekki fyrir mig“

Åge Hareide og Orri Steinn Óskarsson.
Åge Hareide og Orri Steinn Óskarsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Ég mun ræða við Orra Stein þegar hópurinn kemur saman,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, á fjarfundi með fjölmiðlamönnum í dag.

Orri Steinn Óskarsson er í leikmannahóp íslenska liðsins sem mætir Svartfjallalandi hinn 6. september á Laugardalsvelli og Tyrklandi í Ízmir, 9. september, í B-deild Þjóðadeildarinnar.

Orri Steinn, sem er tvítugur, hefur meðal annars verið orðaður við bæði Englandsmeistara Manchester City og Real Sociedad og Girona á Spáni síðustu daga.

Undir þeim sjálfum komið

„Ég vil ekki blanda mér í mögulega félagskipti leikmanna en ef þeir spyrja mig um ráð, sem þeir gera oft, þá gef ég þeim þau,“ sagði Hareide.

„Þegar allt kemur til alls er það undir leikmönnunum sjálfum komið hvað þeir vilja gera. Við viljum að sjálfsögðu að þeir spili fyrir bestu liðin en það sem skiptir mestu máli er að þeir spili. Ef að Manchester City kaupir hann þá yrði hann varamaður fyrir Haaland.

Það er fínt fyrir budduna hans Orra en ekki fyrir mig, því ég vil fyrst og fremst að hann sé að spila. Hann er framherji númer eitt hjá Köbenhavn í dag og er að fara spila í Sambandsdeildinni að öllum líkindum þannig að hann er á góðum stað,“ sagði Hareide.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert