Víkingar upp fyrir fjögur íslensk lið

Víkingar hafa unnið sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar með árangri …
Víkingar hafa unnið sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar með árangri sínum í sumar. Eggert Jóhannesson

Víkingar úr Reykjavík hafa með árangri sínum í Evrópumótum karla í fótbolta undanfarnar vikur farið fram úr fjórum öðrum íslenskum félögum hvað varðar árangur í Evrópukeppni.

Þegar Víkingar fóru af stað í undankeppni Meistaradeildarinnar í júlí voru þeir í tíunda sæti yfir íslensk karlalið í Evrópukeppni, þegar stigasöfnun liðanna er skoðuð.

Þeir höfðu þá fengið 18 stig úr 23 Evrópuleikjum en hafa nú bætt við 12 stigum í átta leikjum, með þremur sigrum og þremur jafnteflum. 

Með þessu fóru Víkingar fram úr Keflavík, Fram, Stjörnunni og nú síðast fóru þeir fram úr ÍBV með jafnteflinu gegn UE Santa Coloma í Andorra í kvöld. Þeir eru komnir með 30 stig úr 31 Evrópuleik en ÍBV er með 30 stig úr 46 Evrópuleikjum.

Stig íslenskra karlaliða í Evrópukeppni eru nú sem hér segir:

88 FH (73 leikir)
74 KR (84 leikir)
59 Breiðablik (47 leikir)
53 ÍA (72 leikir)
48 Valur (70 leikir)
30 Víkingur R. (31 leikur)
30 ÍBV (46 leikir)
27 Stjarnan (26 leikir)
26 Fram (42 leikir)
25 Keflavík (44 leikir)
15 KA (10 leikir)
  9 Fylkir (14 leikir)
  7 Grindavík (6 leikir)
  5 Leiftur (12 leikir)
  4 Þór (4 leikir)
  0 ÍBA (2 leikir)

Stig Víkinga gegn UE Santa Coloma í kvöld er jafnframt 500. stig íslensks karlaliðs í Evrópukeppni frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert