Breiðablik á toppinn

Samantha Smith sækir að Víkingumí sumar.
Samantha Smith sækir að Víkingumí sumar. mbl.is/Ólafur Árdal

Breiðablik hafði betur gegn Víkingi, 4:0, í 19. umferð Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Úrslitin þýða að Breiðablik fer á toppinn með 51 stig, upp fyrir Val í öðru sæti með 50 stig en Valskonur gerðu jafntefli við Þrótt í kvöld. Víkingur situr áfram í fjórða sæti með 29 stig.

Samantha Rose Smith kom Breiðablik yfir á áttundu mínútu. Andrea Rut Bjarnadóttir kom með stórkostlega stungusendingu á Smith í frábæru hlaupi sem kláraði af miklu öryggi framhjá Sigurborgu Kötlu Sveinbjörnsdóttur. 

Á 17. mínútu fékk Barbára Sól Gísladóttir frábært færi til að tvöfalda forystu Breiðabliks. Smith tók hornspyrnu sem rataði á Barbáru í markteignum en á einhvern ótrúlegan hátt fór skot hennar framhjá. 

Leikurinn róaðist í kjölfarið og var lítið að frétta þar til á 33. mínútu. Þá skoraði Samantha Rose Smith annað mark Breiðabliks og annað mark sitt í dag. Það kom eftir sendingu frá Katrínu Ásbjörnsdóttur á Smith sem keyrði inn á teig Víkinga og afgreiddi boltann í fjærhornið. 

Rúmri mínútu síðar voru Víkingar nálægt því að minnka muninn. Emma Steinsen kom með fyrirgjöf á Bergþóru Sól Ásmundsdóttur sem átti skot í slána. Breiðablik fór með 2:0 forystu í hálfleik. 

Blikar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og á 56. mínútu kom Andrea Rut Bjarnadóttir Breiðablik í 3:0. Smith kom með fyrirgjöf sem Andrea tók niður í teignum og skoraði síðan af stuttu færi. 

Á 64. mínútu skoraði Agla María Albertsdóttir fjórða mark Breiðabliks, mínútu eftir að hún kom inn á. Barbára kom með fastan bolta á nærstöngina á Öglu Maríu sem hamraði boltanum í netið í fyrstu snertingu. 

Breiðablik fékk ágætis færi til að skora fimmta markið en það gerðist ekki og því lokaniðurstöður í kvöld, 4:0 sigur Breiðabliks. 

Breiðablik 4:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. 2 mínútur í uppbótartíma
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert