Seigla skilaði Þrótti jafntefli gegn Val

Fanndís Friðriksdóttir kemur Valskonum yfir.
Fanndís Friðriksdóttir kemur Valskonum yfir. mbl.is/Eyþór

Þó Valskonur væru meira og minna með boltann þegar Þróttur kom í heimsókn, í 1. umferð efri hluta keppni Íslandsmótsins í fótbolta kvenna að Hlíðarenda í kvöld, var það ekki nóg því Þróttur gafst aldrei upp og tókst að kremja út 1:1 jafntefli, þrátt fyrir að vera einum leikmanni færri síðasta korterið.

Valskonur hófu leikinn af miklu meiri krafti en Þróttur átti alveg von á því og varðist vel þó stundum hafi reynt á Mollee Swift í markinu.

Fyrsta færið kom á 10. mínútu þegar Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir bjó sér til gott færi í miðjum vítateig Þróttar, fékk þar boltann, sneri snögglega og skaut í átt að vinstra horninu en Mollee var snögg niður og varði.

Mínútu síðar fékk Jasmín Erla Ingadóttir gott færi rétt utan við markteigslínu Þróttar eftir góða sókn Vals upp vinstri kantinn en Mollee var aftur snögg til og varði niður við vinstra hornið.

Eitthvað varð eftir að gefa þegar Valskonur hófu að sækja aftur af krafti.  Eftir góða sókn upp vinstra megin gaf Ragnheiður Þórunn boltann þvert til hægri á Fanndísi Friðriksdóttir, sem var mætt og skaut úr miðjum vítateig niður í hægra hornið á 32. mínútu.  Staðan 1:0.

Það segir sína sögu um fyrri hálfleik að Valur átti 5 skot að marki þar sem fjögur fóru á marki og 3 hornspyrnur en Þróttur ekkert.

Fyrsta færið í seinni hálfleik kom eftir hornspyrnu Valskvenna á 53. mínútu.  Boltinn kom niður á miðri markteigslínunni og mikil þvaga, Natasha Anasi náði að skalla en vörn Þróttar bjargaði á línu.  Boltinn hélt síðan áfram að þvælast um í vítateig gestanna, þar til þeir náðu loks að hreinsa frá markinu.

Rétt á eftir átti fyrirliði Vals, Berglind Rós Ágústsdóttir, gott skot úr miðjum vítateig Þróttar en boltinn skoppaði rétt framhjá hægri stönginni.

Valur ætlaði ekki að sætta sig við þetta og ákefðin var meiri en Þróttarakonur voru líka vaknaðar og vörðust að miklum móð. 

Þrátt fyrir að Valskonur réðu lögum og lofum, dugði það ekki til að búa til dauðafæri í samræmi við það og brugðið getur til beggja vona með eins marks forystu því Þróttarar eru farnir að feta sig aðeins framar á völlinn.

Eins og við manninn mælt og Þróttur jafnar í 1:1 á 68. mínútu.  Þróttur fékk horn, boltinn sendur inn í markteig Vals þar sem Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, stökk hæst til að skalla í markið af stuttu færi.

Á 75. fékk Þróttarinn Sæunn Björnsdóttir sitt annað gula spjald og þar með rautt svo Þróttur yrði einum færri síðustu 15 mínúturnar.

Valur fékk gott færi á 86. mínútu þegar Ísabella Sara Tryggvadóttir komst ein í gengum vörn Þróttar en Mollee í markinu var snögg út á móti henni og lokaði fyrir skotið.  Vel gert.

Næstu leikir liðanna í efri hlutanum eru næsta föstudag þar sem Valur sækir Þór/KA heim og Þróttur fær Blika í heimsókn. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Breiðablik 4:0 Víkingur R. opna
90. mín. Leik lokið Leik lokið hér á Kópavogsvelli. Breiðablik með sannfærandi 4:0 sigur.

Leiklýsing

Valur 1:1 Þróttur R. opna loka
90. mín. +5 mínútur í uppbót.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert