Fram þarf einn sigur í viðbót

Madison Schwartzenberger og liðsfélagar hennar í ÍA fagna sigurmarkinu í …
Madison Schwartzenberger og liðsfélagar hennar í ÍA fagna sigurmarkinu í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Fram er í fínum málum í öðru sæti 1. deildar kvenna í fótbolta eftir útisigur á Grindavík, 1:0, í Safamýri í dag. Murielle Tiernan skoraði sigurmarkið á 69. mínútu.

Framarar eru með 31 stig, eins og Grótta, þegar ein umferð er eftir. Fram er með 13 mörk í plús og Grótta fjögur.

Fram nægir því heimasigur gegn toppliði FHL í lokaumferðinni til að fara upp um deild, svo lengi sem Grótta vinnur ekki rúmlega tíu marka útisigur á ÍA.  

Grótta átti einnig möguleika á að fara upp í Bestu deildina í lokaumferðinni í fyrra en tapaði fyrir Fylki í hreinum úrslitaleik um sæti í deild þeirra bestu. Fram er á sínu öðru tímabili í deildinni.

FHL, sem er búið að vinna deildina, og fallið lið ÍR buðu upp á mikla skemmtun í Fjarðabyggðarhöllinni. Urðu lokatölur 6:4, Austfirðingum í vil. Björg Gunnarsdóttir skoraði þrennu fyrir FHL og þær Kristín Barboza, Alexa Bolton og Hafdís Ágústsdóttir skoruðu einnig.

Erin Longsden skoraði tvö fyrir ÍR og Lovísa Guðrún Einarsdóttir og Sigríður Dröfn Auðunsdóttir sitt markið hvor.

HK gerði góða ferð í Mosfellsbæ og sigraði Aftureldingu, 4:1. Elísa Birta Káradóttir, Brookelynn Entz, Jana Sól Valdimarsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir gerðu mörk HK. Sigrún Gunndís Harðardóttir skoraði fyrir Aftureldingu.

Þá vann ÍA 1:0-útisigur á ÍBV í Vestmannaeyjum. Madison Schwartzenberger skoraði sigurmarkið á 67. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka