Leiknir felldi Dalvík/Reyni – Þór þarf einn sigur

Aron Einar Gunnarsson í miklum slag í dag.
Aron Einar Gunnarsson í miklum slag í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Dalvík/Reynir er fallið úr 1. deild karla í fótbolta eftir tap liðsins gegn Leikni úr Reykjavík í Breiðholtinu í dag, 2:1.

Áki Sölvason kom Dalvík/Reyni yfir á 24. mínútu en Sindri Björnsson jafnaði á lokamínútu fyrri hálfleiks, áður en Kári Steinn Hlífarsson skoraði sigurmark Leiknis á 82. mínútu.

Dalvík/Reynir er í botnsætinu með 13 stig, sjö stigum frá öruggu sæti þegar sex stig eru eftir í pottinum. Leiknir er í níunda sæti með 24 stig.

Þór þarf einn sigur í síðustu tveimur umferðunum til að gulltryggja veru sína í deildinni á næstu leiktíð  eftir jafntefði við ÍR á heimavelli, 1:1.

Hákon Dagur Matthíasson kom ÍR yfir á 13. mínútu en Daninn Marc Rochester Sørensen jafnaði á 69. mínútu.

Þór mætir Dalvík/Reyni í næstu umferð og eru möguleikar liðsins á að halda sæti sínu í deildinni því góðir. ÍR er í fimmta sæti með 32 stig, einu stigi á undan Njarðvík í baráttunni um fimmta sæti, sem gefur þátttökurétt í umspilinu í lok tímabils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka